150. löggjafarþing — 117. fundur,  15. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[23:42]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé fyrir andsvarið. Ég vil biðjast undan því að hafa sett hér einhvers konar Reykjavíkurmet í skeytingarleysi. Það var alls ekki meiningin. Það liggur samt þannig að það er skoðun mín, sem ég setti fram áðan og sérstaklega með vísan í orð hv. framsögumanns meiri hlutans, Vilhjálms Árnasonar, að engum dyljist að það er litið svo á að það að fjármagna borgarlínuframkvæmdir upp á 50 milljarða hafi verið lykill að því að komast áfram með stofnbrautaframkvæmdir.

Ég velkist ekkert í vafa um að fengju þessir 230.000–240.000 íbúar Reykjavíkurborgar og nágrannasveitarfélaga að greiða um það atkvæði væru þeir flestallir miklir stuðningsmenn þess að farið yrði í mikið átak hvað stofnbrautaframkvæmdir varðar.

Hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé gerir mikið úr því að ég hugsi mikið um hv. borgarstjóra, Dag B. Eggertsson. Ég geri ekki mikið af því. En auðvitað verður ekki undan því komist þegar árásir borgarstjóra og borgarstjórnarmeirihlutans alls á tiltekin samgöngumannvirki eins og flugvöllinn í Vatnsmýrinni eru jafn linnulausar og raunin er í andstöðunni við að hleypa stofnbrautaframkvæmdum á skipulag. Tökum bara sem dæmi alla þrautagönguna í tengslum við Sundabraut.

Þetta er ekki persónuleg andstaða við Dag B. Eggertsson. Samfylkingin í Reykjavíkurborg velur bara sinn oddvita og eftir ítrekuð ný varadekk er hann enn þá auðvitað borgarstjóri. Flesta daga upplifi ég það þannig að borgarstjórnarmeirihlutinn í Reykjavík sé sinn eigin versti óvinur. Ég þarf ekkert að koma þar til.