150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[18:34]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Smára McCarthy fyrir andsvarið og spurningarnar. Vinir eða óvinir bílsins — ég er í hvorugu liðinu. Ég kom inn á samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu sem lengi hafa verið til umræðu. Ég sé fyrir mér stofnbrautirnar sem augljóslega þarf að laga. Í sambandi við samgöngur innan borgarinnar hefur það sýnt sig að aukin notkun almenningsvagna hefur ekki staðið undir væntingum. Kvartað hefur verið yfir því að þrengingar séu á götum og það er staðreynd. Maður hefur sjálfur verið stopp í umferðinni. Ég tala fyrir mislægum gatnamótum þar sem það á við og greiðari samgöngum fyrir bíla á helstu vegum borgarinnar. Það myndi um leið rýmka akstursleiðir strætisvagna. Ég átta mig ekki á þeirri leið sem verið er að tala um í sambandi við borgarlínuna, hvað hún á að kosta eða hver útfærslan á að vera. En ég tek mér ekki stöðu með eða á móti. Fólk er farið að ferðast mikið á hjóli og gangandi eða með öðrum hætti og það er hið besta mál, en ég tala ekki gegn einu eða öðru í þessu sambandi.