150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[21:54]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður hefur lag á því að snúa algerlega á haus í andsvörum því sem ræðumaður hefur haldið fram. Ég var einmitt að benda á að skoska leiðin eins og hún er útfærð í Skotlandi er þess eðlis að staðir eins og Akureyri og Egilsstaðir myndu ekki falla undir hana. Ég var að útskýra að það væri auðvitað ótækt á Íslandi. Þess vegna vil ég fá að vita, og hefði talið eðlilegt að það birtist í samgönguáætlun ríkisstjórnarinnar, hvernig hún sér skosku leiðina, hvort hún ætlar að útfæra hana eins og gert er í Skotlandi þar sem eingöngu íbúar alafskekktustu staðanna geta nýtt hana eða hvort ríkisstjórnin ætlar að útfæra skosku leiðina á Íslandi með þeim hætti að hún eigi við um samgöngur almennt, flugsamgöngur innan lands. Þannig þarf það að vera, stuðningur við flug til stærri staðanna, eins og Akureyrar og Egilsstaða, en einnig til minni staðanna.