150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[22:26]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Það kemur kannski engum á óvart að ég er alveg hjartanlega sammála þessari greiningu hv. þm. Loga Einarssonar. Þetta kjarnast í hugmyndum frá Jane Jacobs og öðrum um það hvernig borgir séu visthæfar og hvar gott sé að búa og allt það. Engu að síður er þessi togstreita enn til staðar og maður heyrir hjá mörgum að þeim finnst markmiðið að þétta borgina hér í Reykjavík einhvern veginn vera rangt. Ég er ósammála því. Þessi togstreita hlýtur að vera til komin út af einhverju, sumum finnst bara að úthverfi séu einhverra hluta vegna betri. Ég hef aldrei skilið úthverfi sjálfur en hvernig komum við til móts við þau sjónarmið? Ég hef svolítið átt í erfiðleikum með það sjálfur vegna þess að þegar ég horfi á úthverfi sameinar það alla helstu ókosti borgarmiðju og alla helstu ókosti sveita en tekur ekkert af því góða sem fylgir því að vera í sveit og ekkert af því góða sem fylgir því að vera í miðri borg. Eftir sem áður er fólk, t.d. hér í Reykjavík og í vaxandi mæli í stærri bæjum landsins, ég tek Akureyri og Egilsstaði sem dæmi, enn að færa sig út í úthverfin. Fólk virðist vilja það, alla vega einhverjir. Þetta er lífsstíll sem mun ekki hverfa á einni nóttu og hvar setjum við niður einhvers konar jafnvægi þarna á milli?