150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[22:52]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Já, ég byrja á þessu með neikvæðnina Ég veit að það er kannski hlutverk stjórnarandstöðuþingmanna að gagnrýna. Ég reyni að vera gagnrýninn, en ég reyni að vera sanngjarn og vil passa upp á að fólk upplifi ekki orð mín sem ósanngjarna árás vegna þess að ég er í raun að reyna að koma með mikilvæga punkta. Samgöngumál eru bara einn málaflokkur af mörgum sem getur tekið endalaust til sín. Við vitum það. En það er engu að síður rétt að það þarf töluvert meira og betra í þessu tilfelli vegna þess hve lengi það hefur setið á hakanum að bæta úr augljósum vanköntum.

En hvað flugið varðar held ég að fyrsta skrefið, og kannski það stærsta, væri að lagfæra þá villu, og ég tel það vera villu, að hafa ekki 40 lendingarstaði og einn flugvöll inni í samgönguáætlun, þó ekki væri nema til annars en að viðurkenna tilvist þeirra svo hægt væri að hugsa um þá í stærra samhengi til lengri tíma. Það er eingöngu gert ráð fyrir viðhaldi á tveimur brautum utan kjarna í áætluninni á næstu árum, og það er árið 2024, ef mig misminnir ekki. Í fyrsta lagi er afskaplega skrýtið að samgönguáætlun geri ráð fyrir viðhaldi á brautum sem sama áætlun viðurkennir ekki að séu til, en hitt er að það verður svo erfitt að hugsa um samgöngunet Íslands í almennu samhengi ef ekki er búið að gera grein fyrir því hvað nákvæmlega er til. Fyrsta og kannski stærsta atriðið sem ég myndi vilja laga er hreinlega að uppfæra listann. Svo mættum við í kjölfarið fara að tala um að leggja til einhvern pening, t.d. til að malbika ýmsar brautir.