150. löggjafarþing — 120. fundur,  18. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[16:05]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Forseti. Ef ég skil þingmanninn rétt þá var hann að ræða um mál sem eru á valdsviði Reykjavíkurborgar. Ég hef hreinlega svona þúsund og einn hlut til að setja í forgang, forgangsraða því hvernig ég starfa hér á þingi. Mitt hlutverk er m.a. að halda stjórnarskrána. Mitt hlutverk er síðan að passa upp á það að grunnstefnan okkar sé virt á Alþingi sem er vernd og efling borgararéttinda og lýðræðisumbætur. Á þeirri grunnstefnu eru síðan byggð upp alls konar stefnumál.

Ég hef verið í atvinnuveganefnd lengi og þar þarf ég að passa upp á og hef gert vel, og þingmaðurinn kinkar kolli, að ég hafi staðið mig ágætlega í því að passa upp á að þau sjónarmið rati inn í þá löggjöf eins og lög Pírata kveða m.a. á um að mitt hlutverk sé hér inni á þingi. Að sjálfsögðu verð ég að passa upp á það að almannahagsmunir séu hafðir að leiðarljósi. Þetta er forgangsröðunin í mínu starfi. Það þýðir að ég hef ekki getað sökkt mér ofan í það gríðarlega áhugaverða verkefni sem borgarlínan er. Ef ég skil eitthvað um það þá er hún forgangsrein sem þýðir að með alls konar forsendum er hægt að greiða fyrir umferð (Forseti hringir.) og það þýðir líka að það greiðir fyrir umferð þeirra sem ekki uppfylla forsendurnar, því það eru komnar fleiri leiðir.