150. löggjafarþing — 120. fundur,  18. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[22:08]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Karl Gauti Hjaltason) (M):

Herra forseti. Ég tala fyrir hönd 2. minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar. Við skiluðum séráliti, hv. þm. Bergþór Ólason og ég, og mælti ég fyrir áliti okkar á mánudagskvöldið og fylgi því hér eftir í fleiri ræðum. Við gátum ekki verið á áliti meiri hlutans af nokkrum ástæðum, helst vegna hugmynda um veggjöld vegna þess að við töldum þau vera óskýr og óútfærð og að fjárhagur þeirra væri í fullkominni óvissu. Og einnig vegna þess að í samgönguáætlun og áliti meiri hlutans er mælt fyrir um þátttöku í svokölluðum samgöngusáttmála höfuðborgarinnar, sem við erum fylgjandi að miklu leyti, þ.e. að hér verði byggðar upp stofnbrautir og mislæg gatnamót, sem er löngu komin brýn þörf á að fara í og rjúfa með þeim sáttmála það framkvæmdastopp sem hér hefur verið. Við erum ósáttir við hluta sáttmálans, þ.e. þann hluta sem snýr að svokallaðri borgarlínu. Við höfum ekki getað sætt okkur við að vera aðilar að óútfylltum tékka til framkvæmda í þágu borgarlínu sem talsmenn borgarlínu kalla rauðan dregil fyrir strætisvagna. Við höfum ekki getað verið á meirihlutaáliti þess vegna og vegna veggjalda og fleira slíks.

Athugasemdir okkar snúa að því að krefjast þess af stjórnvöldum að önnur gjöld af vegfarendum sem kjósa að ferðast um á bifreiðum verði lækkuð til samræmis um leið og veggjöld eru tekin upp, og að þetta verði ekki aukaskattlagning á vegfarendur og valdi auknum fjárútlátum þeirra. Við höfum einnig áhyggjur af margfeldisáhrifum innheimtu, eins og ég skýrði út í annarri ræðu. Ég kem nánar að því síðar.

Herra forseti. Ég get tekið undir orð hv. þm. Sigríðar Á. Andersen, sem fjallaði áðan um samgönguáætlun og álit meiri hlutans. Hún saknaði þess að í áliti meiri hlutans væri ekki að finna neinar bollaleggingar um áhrif bágrar stöðu ríkissjóðs á næstunni vegna erfiðs atvinnuástands og þess að fyrirséð væri að fjármagn yrði af skornari skammti en oft áður á næstu mánuðum og misserum. Ég get að mörgu leyti tekið undir það. Við getum auðvitað ekki ætlast til þess að það séu ótæmandi sjóðir og einhvern tímann þverr það fé sem við höfum úr að spila. En með tilliti til mikilvægis þess að halda uppi atvinnu- og framkvæmdastigi, sérstaklega í hagkvæmar framkvæmdir, samgöngubætur, sem menn eru búnir að bíða lengi eftir, og eru hagkvæmar þjóðhagslega og út frá byggðarlegum sjónarmiðum, þá teljum við í minni hlutanum samt sem áður að veita þurfi aukið fé í samgönguframkvæmdir, eins og meiri hlutinn reyndar líka. Við tökum undir það. En að sjálfsögðu kemur að því að það dregst eitthvað saman vegna áhrifa þess atvinnuástands sem nú er uppi.

Herra forseti. Ég vil sérstaklega minnast á, og tek undir það, orð hv. þingmanns um að farið sé út í framkvæmdir eins og borgarlínu einmitt á þessum samdráttartímum þegar þörf er á að veita fé inn í atvinnulíf landsins. Það ætti þá frekar að veita fé í hagkvæmar framkvæmdir, eins og víða má finna hér á höfuðborgarsvæðinu, en ekki í lítt útfærða hugmynd, einhvers konar draumsýn, skýjaborgir, um rauða dregla fyrir strætó, þegar framkvæmdir og fjárveitingar til almenningssamgangna hafa aukist á undanförnum árum í því markmiði að auka notkun á þeim. Sú tilraun hefur mistekist.

Herra forseti. Að fara út í þetta verkefni á þessum tímum finnst mér vera óráðlegt og ég styð það ekki.