150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[12:52]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Forseti. Ég þakka áminninguna um ræðutímann. Hún kemur ekki til af engu því að þessar fimm mínútur hafa reynst mjög fljótar að líða. Það er því eins gott að nýta ræðutímann vel. Þess vegna ætla ég að vinda mér beint í næsta kafla sem er umræða um Reykjavíkurflugvöll.

Það er hins vegar nauðsynlegt að byrja aðeins á að fara yfir sögu flugvallarins til að geta útskýrt hvers vegna staða hans ætti að vera sú að hann sé sameign landsmanna allra. Þessi flugvöllur var, eins og menn þekkja, byggður af hernámsliðinu á stríðsárunum og þá var þarna fyrir hverfi. Mörg hús voru ýmist rifin eða færð til svo að hægt væri að koma flugvellinum fyrir og lagt undir hann land sem þar með var í ríkiseigu. Svo hefur það gerst, eins og ég kem aðeins inn á hér á eftir, að ríkið hefur verið að gefa þetta land frá sér. Núna ætla ég að fara yfir hvers vegna það er óforsvaranlegt að ríkið gefi land undan Reykjavíkurflugvelli.

Þegar hernámsliðið fór héðan frá Reykjavík var flugvöllurinn afhentur Íslendingum, ekki Reykjavíkurborg. Hann var afhentur landsmönnum enda varð hann fljótt mikilvægur þáttur í samgöngukerfi landsins alls og má segja að Reykjavíkurflugvöllur sé forsenda innanlandsflugs á Íslandi. Hann er forsenda þess að hægt sé að viðhalda innanlandsflugi, sem er auðvitað sérstaklega mikilvægt í tiltölulega stóru og dreifbýlu landi þar sem við höfum ekki járnbrautarlestir eins og tíðkast víðast hvar annars staðar. Við þurfum fyrir vikið í enn frekara mæli en mörg önnur lönd að reiða okkur á þennan fararkost, innanlandsflug.

Svo þróuðust mál með þeim hætti að flugvöllurinn fór einnig að gegna lykilhlutverki í stjórnsýslu. Það sem ég á við er að með því að hafa flugvöllinn í nálægð við stjórnsýsluna í Reykjavík skapaðist betri tenging við byggðirnar vítt og breitt um landið. Sveitarstjórnarfulltrúar, starfsmenn stofnana o.s.frv. áttu greiða leið að stjórnsýslunni í höfuðborginni. Flugvöllurinn er því ekki aðeins mikilvægur liður í samgöngum, vegna ýmiss konar ferðalaga fólks í ýmsum erindagjörðum, hann er líka mikilvægur liður í stjórnsýslu landsins, og því að landinu sé ekki bara stjórnað með tilskipunum frá einum punkti heldur í samstarfi stofnana og stjórnsýslustiga sem geta verið stödd hvar sem er á landinu.

Meiri hlutinn í Reykjavíkurborg hefur hins vegar lengi haft það á dagskrá að fjarlægja þennan flugvöll og hefur nú kerfisvætt þau áform sín, eins og ég mun útskýra hér í framhaldinu. Það er búið að setja það markmið inn í hinar ýmsu stofnanir borgarinnar og embættismannakerfið að vinna að því að flugvöllurinn fari eftir ólíkum leiðum. Þannig hafa borgaryfirvöld jafnt og þétt þrengt að flugvellinum úr öllum áttum, með ólíkum aðgerðum. Það blasti við þegar ég fór fyrst að skoða þetta fyrir hátt í 20 árum. Þá teiknaði ég einmitt upp kort, sem ég held að ég hafi sýnt í sjónvarpi, sem sýndi þessi áform, hvernig borgaryfirvöld hugsuðu sér að sækja að flugvellinum með ólíkum leiðum, þrengja að honum úr öllum áttum þar til þau gætu sagt: (Forseti hringir.) Sjáiði, það er ekki lengur pláss fyrir þennan flugvöll.

Herra forseti. Nú er ég bara rétt að byrja á skýringu minni á því hvernig borgin er að reyna að þoka Reykjavíkurflugvelli í burtu og bið ég hæstv. forseta að setja mig aftur á mælendaskrá.