150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[15:25]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Enn á ný ræðum við samgöngumálin og alltaf er maður að læra eitthvað nýtt. Síðast skildi ég hér við þar sem ég fór yfir skosku leiðina, meira til að glöggva mig betur á henni, hvernig hún virkar í raun og veru eða hvernig ætlunin er að hún virki við íslenskar aðstæður. Ég var komin nokkurn veginn á þá skoðun að skoska leiðin væri ekkert endilega besta leiðin. Í stórum dráttum miðar hún að því að auka aðgengi fólks af landsbyggðinni, svokölluðum jaðarbyggðum, að þjónustu á höfuðborgarsvæðinu.

Í plaggi um skosku leiðina er oftar en ekki fjallað um heilbrigðisþjónustu. Mér finnst það ekki alveg nógu gott. Mér finnst heilbrigðisþjónusta falla undir lögbundna grunnþjónustu. Hún á að vera aðgengileg öllum og það í heimabyggð. Það getur vel verið að fólk fái niðurgreidda flugleggi núna, meira að segja í gegnum sjúkratryggingar, en samt sem áður er það þannig að oftar en ekki fær fólk ekki allar þær nauðsynlegu ferðir sem það þarf á að halda vegna þess að sjúkratryggingar segja það ónauðsynlegt þrátt fyrir að læknir hafi bent á annað. Það eru dæmi þess að fólk sé að taka hreinlega Visa-raðgreiðslulán, svo að ég rifji það upp, til að eiga fyrir því að sækja læknisþjónustu. Skoska leiðin er þannig vaxin að við þurfum að hafa möguleika á því að ræða kosti hennar og galla áður en hún verður tekin upp. Ég tel að við höfum ekki rætt kosti hennar, bara alls ekki.

Svo að ég haldi mig við flugið er ný flugstefna kynnt til sögunnar í frumvarpi um samgönguáætlun fyrir árin 2020–2034. Það er mjög gott og margt gott er þarna að finna. Ég ætla ekki að segja að þetta sé allt alslæmt. Þar er tekið fram að góðar flugsamgöngur séu forsenda þess að á Íslandi búi sjálfstæð nútímaþjóð. Það er talað um að gera innanlandsflugið að hagkvæmari kosti fyrir íbúa landsbyggðarinnar og þá erum við sjálfsagt að tala um skosku leiðina. Ég hjó samt eftir einu á blaðsíðu 32 í langtímaáætluninni, þetta er ekki langt, með leyfi forseti:

„Stefna stjórnvalda er að auka millilandaflug um Akureyri eða Egilsstaði til að ferðamenn dreifist betur um landið.“

Mér finnst svolítið vont þegar þessum stöðum er stillt upp hvorum á móti öðrum. Ég hefði frekar talað um að stefna stjórnvalda væri að auka millilandaflug um Akureyri og Egilsstaði sem dæmi, og telja jafnvel til fleiri flugvelli sem gætu þjónað millilandafluginu.

Síðan er mikið fjallað um hvernig við getum tekið við fleiri ferðamönnum. En það er algjörlega skautað fram hjá því að það getur meira en vel verið að heimamenn á hverjum stað vilji hreinlega losna við að þurfa að fara til Keflavíkur. Ég staldra aðeins við það atriði og finnst að hreinlega megi skrifa þann kafla upp á nýtt til að hann þjóni raunverulega tilgangi landsins alls. Rætt er um innanlandsflug og það er mjög gott og blessað. En enn og aftur er tekið fram að auka þurfi aðgengi að miðlægri þjónustu á höfuðborgarsvæðinu. Þarna held ég að við þurfum að staldra töluvert við.

Ef við höldum áfram í flugkaflanum þá er býsna margt talað um (Forseti hringir.) í sambandi við tæknihluti. Ég tek það bara í næstu ræðu og bið forseta að setja mig aftur á mælendaskrá.