150. löggjafarþing — 124. fundur,  23. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[13:10]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég hefði gjarnan viljað að hv. þm. Jón Gunnarsson skildi spurningamiðann sinn eftir svo ég gæti rakið mig í gegnum hann. Svo ég reyni að fara hratt í gegnum þetta þá fyrst varðandi það hvernig skipulagsmálunum verður háttað. Í samkomulaginu segir, með leyfi forseta:

„Tryggt skal að heimildir félagsins gangi ekki gegn sjálfsákvörðunarrétti sveitarfélaga eða rétti þeirra og skyldum samkvæmt sérlögum, svo sem skipulagslögum.“

Það er alveg skýrt þarna að staða sveitarfélaganna er mjög sterk hvað það varðar að hafna til að mynda mislægum gatnamótum á nefndum gatnamótum Bústaðavegar og Reykjanesbrautar.

Varðandi endurskoðunarákvæðin sem hv. þingmaður spurði um þá eru þrjár málsgreinar í 7. hluta samkomulagsins um endurskoðunarákvæði. Í tveimur þeirra stendur til að mynda, með leyfi forseta, „til að tryggja framvindu og framkvæmd samkomulagsins í samræmi við markmið þess, þar með talið 3. gr. samkomulagsins um að framkvæmdaáætlun nái fram að ganga.“ Þetta á allt að ganga út á það að framkvæmdaáætlunin nái fram að ganga. Í næstu málsgrein stendur, með leyfi forseta, að við slíkar aðstæður, sem sagt við endurskoðun, „skal markmið viðræðna vera það að tryggja að framkvæmdaáætlunin nái fram að ganga eins og kostur er“. Það er beinlínis skrifað inn í höfuðborgarsamninginn hver niðurstaðan á að vera. Þetta þykir mér algerlega óforsvaranlegur frágangur.

Síðan vil ég benda á málsgrein í samkomulaginu þar sem segir, og á þeim grunni tel ég að við eigum að byggja það að skrifa inn ákveðnar girðingar, frekari vörður hvað skipulagsmál varðar, með leyfi forseta:

„Samhliða stofnun félagsins verða festar í sessi skuldbindingar og hlutverk ríkis og hlutaðeigandi sveitarfélaga.“

Varðandi atriði sem hv. þingmaður kom inn á, að verkefnið, sáttmálinn félli ef skipulagsmál (Forseti hringir.) gengju ekki fram með forsvaranlegum hætti, þá hef ég ekki fundið það, hvorki í samkomulaginu, frumvarpinu né nefndarálitinu.