150. löggjafarþing — 124. fundur,  23. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[13:28]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að ræða moldvörpur. Mér skilst að fyrr í þessari umræðu hafi hv. þm. Sigríður Á. Andersen haldið ansi hnyttna ræðu sem fjallaði að vísu minna um efnisatriði en meira um hluti og verur á borð við moldvörpur og þá ekki endilega sem eftirsóknarverðar verur. Þegar þessi framtíðarsýn um betri almenningssamgöngur og betri og umhverfisvænni samgöngur almennt væri orðin að veruleika þá væru höfuðborgarbúar orðnir að moldvörpum.

Nú vill svo til að ég stend í andsvörum við þann þingmann sem þekkir þetta líklega best á eigin skinni, býr á Akranesi og keyrir fram til baka a.m.k. daglega. Ef örstuttur vegspotti á Miklubraut — og ég spyr ekki síst vegna þess að í umræðunni síðustu daga hafa þingmenn Miðflokksins, hv. þm. Bergþór Ólason þar með talinn, vísað svolítið í þetta hugtak, moldvörpur, enda hnyttnir menn — sem ætlunin er að setja í stokk gerir höfuðborgarbúa að moldvörpum þá langaði mig bara í einlægni (Forseti hringir.) að spyrja hv. þingmann sem keyrir Hvalfjarðargöngin a.m.k. tvisvar á dag að jafnaði: Hvernig er tilfinningin og er þetta nokkuð að óttast?