150. löggjafarþing — 124. fundur,  23. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[14:38]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni ræðuna. Mér þóttu það nú með albestu mismælum sem ég hef heyrt síðustu daga þegar hv. þingmaður talaði um að hér væri umferðarkreppa. Það er nefnilega alveg hárrétt og ég ætla að setja fram þá kenningu að þetta hafi ekki verið mismæli heldur hafi hv. þingmaður ákveðið að máta þetta nýja hugtak inn í þessa umræðu. Við höfum sannarlega alllengi verið í umferðarkreppu á höfuðborgarsvæðinu og að stórum hluta er sú umferðarkreppa manngerð. Þetta eru skipulagslegar ákvarðanirnar sem hafa verið teknar.

Mig grunar að við hv. þingmaður deilum ekki alveg skoðun á því hvað væri mikilvægt að hafa fremst í röðinni til að leysa úr eða lina alla vega þessa umferðarkreppu, sem er hugtak sem ég held að muni frá og með deginum í dag ná fótfestu í íslenskri tungu í samræðum um samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu.

En það er tvennt sem mig langar til að spyrja hv. þingmann út í. Af því að ljósastýringar eru eitt af áhersluatriðum samgöngusáttmálans og hv. þingmaður er þingmaður Pírata sem eru aðilar að borgarstjórnarmeirihlutanum í Reykjavík langar mig að spyrja hvort hann eigi einhverjar skýringar á því hvers vegna ekki hafi verið lögð meiri áhersla á að nútímavæða, sumir kalla það smartvæða en ég er ekki nógu tæknilega væddur til að geta útskýrt hvað í því felst, ljósastýringarnar. Því er haldið fram að það geti minnkað stopptíma bifreiða á gatnamótum um 20–40% sem hefur auðvitað gríðarleg umhverfisáhrif.

Hitt atriðið sem mig langaði til að spyrja hv. þingmann út í snýr að hlutfalli farinna ferða sem hefur verið fast í kringum 4% allan þann tíma sem svokallað samkomulag um stórframkvæmdastopp hefur staðið á höfuðborgarsvæðinu. (Forseti hringir.) Hver telur hv. þingmaður að sé helsta skýringin á því að ekki hafi náðst meiri árangur í að hækka hlutfall farinna ferða með strætó?