150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[14:55]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Já, þetta er góð spurning hjá hv. þingmanni um hvernig þetta samræmist vinnunni í framtíðarnefnd. Fram að því að Covid kom öllu í ákveðið uppnám í samfélaginu vorum við í framtíðarnefndinni að fjalla um hvernig bregðast ætti við loftslagsbreytingum og, að því gefnu að við náum markmiðum Parísarsáttmálans, hvað kæmi í raun á eftir, hvað við gerum svo.

Það er alveg rétt að eitthvað mun kosta að vinna þá vinnu, hvort sem við náum markmiðum Parísarsáttmálans eða ekki. Það eru m.a.s. til ansi góðar greiningar á því að það muni kosta margfalt meira fyrir Ísland og alla heimsbyggðina ef við náum ekki markmiðum Parísarsáttmálans, bara hreinlega vegna þess hvað það mun kosta mikið að reyna að laga skelfilegar afleiðingar loftslagsbreytinga. Það er náttúrlega bara fyrir þá sem horfa í peningana frekar en mannslífin. Auðvitað verðum við að ná árangri í þessu.

Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að þetta snýst um að nýta peninga ríkissjóðs vel, að setja sér góð markmið og að fylgja þeim eftir. Ég hef tekið eftir að það er ansi mikið af því hjá núverandi ríkisstjórn að sett séu falleg markmið en í samanburði er afskaplega lítið um að þeim sé fylgt eftir. Orkusjóður er svo greinilegt dæmi um þetta. Þar er verið að setja ótrúlega stór og flott markmið, að vísu svolítið óskýr á ákveðna vegu en engu að síður stór og flott markmið, en fjármagn til að ná markmiðunum er ekki látið fylgja. Það skiptir engu máli hversu margar skýrslur við skrifum (Forseti hringir.) í framtíðarnefndum um mikilvægi orkubreytinga og annað. Ef ekki er til fjármagn til að gera það sem þarf að gera (Forseti hringir.) erum við bara engu bættari.