150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[15:39]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Með leyfi forseta ætla ég að beita engilsaxneskri tungu og segja að vandinn felist stundum en ekki alltaf, og kannski ekki í þessu tilfelli, í viðhorfi sem lýst er með orðunum „computer says no“, í lauslegri þýðingu að tölvan segi nei, herra forseti. Stundum erum við orðin svo rosalega lokuð inni í einhverjum kössum að við gleymum að hugsa út fyrir rammann og gleymum að hugsa um það hvert endanlegt markmið er, sem er náttúrlega að bæta lífsskilyrði og spara peninga þegar upp er staðið með því að finna heitt vatn. Ég held að við þurfum að breyta því viðhorfi og við þurfum að þora að setja meiri fjármuni í þetta. En auðvitað hefur maður skilning á að óttinn við að finna (Forseti hringir.) ekki heita vatnið er væntanlega undirliggjandi þarna en ég held að við ættum samt að gera betur.

(Forseti (ÞorS): Forseti lítur enskuslettur hornauga, þó að þær séu þýddar, af því að þingmálið er íslenska.)