150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[17:14]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er hárrétt. Það er í sjálfu sér ekki nýtt. Þetta hefur verið svona á öllum þingum sem ég hef setið hér, svo ég muni alla vega. Þetta er kannski sérstaklega slæmt núna vegna Covid-19 faraldursins en kemur samt ekki á neinn hátt á óvart. Ég held líka að væntingarnar séu svolítið þannig hjá ríkisstjórn hverju sinni sem situr í skjóli meiri hluta þingsins — og það er annað atriði sem er alveg þess virði að ræða hér betur, fyrirbærið meirihlutastjórn og minnihlutastjórn og allt það — að ríkisstjórnin sé í öllum meginatriðum búin að vinna málið þegar það kemur hingað inn. En síðan kemur það bara aftur og aftur fyrir að ýmislegt bjátar á og er ekki við öðru að búast. Ég held að ef það væri einfaldlega meira skipulag hérna, byggt á því að minni hlutinn upplifði sig ekki alltaf valdalausan með öllu þrátt fyrir að vera fulltrúi rúmlega 40% þjóðarinnar eða kjósenda, væri hægt að ráða bug á þessu. En ég held að það þurfi hugarfarsbreytingu, pólitíska hugarfarsbreytingu, (Forseti hringir.) og hún verður að koma frá meiri hlutanum því að það er hann sem ákveður þetta þegar allt kemur til alls.