150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[22:46]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir áhugaverða punkta í síðari ræðu hans um þetta mál. Það sem hann sagði um mat á áhrifum verkefna vakti sérstaka athygli mína. Eins og ég kom inn á í ræðu minni fyrr í dag þakkaði ég hv. framsögumanni málsins, Njáli Trausta Friðbertssyni, fyrir að kalla málið inn aftur á milli 2. og 3. umr. af því að okkur láðist að fjalla almennilega um athugasemdir sem komu frá m.a. Landsvirkjun og Samtökum iðnaðarins um bætta upplýsingagjöf um verkefni sjóðsins og starfsemi sjóðsins. Það er gríðarlega mikilvægur hluti þess að auka gagnsæi og upplýsingagjöf, er hálfgerð auglýsing jafnvel fyrir sjóðinn. Nú er það svo að Orkusjóð sjálfan, hann hefur 25 milljónir til úthlutunar ár hvert, er varla hægt að kalla samkeppnissjóð. Þetta eru styrkir og lán sem eru veitt til jarðhitaleitar og styrkir til að umbreyta húsum þannig að þau nýti orkuna betur. Því fór ég að velta fyrir mér hvort það sé samt ekki, þó að þetta sé ekki samkeppnissjóður, fullkomlega eðlilegt að upplýsa um þetta. Ég er mjög ánægð með að nefndin hafi alla vega lagt á það áherslu, í síðara nefndaráliti sínu, við ráðherra að skýrari rammi um upplýsingar væri settur í reglugerð. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann sé ekki sammála mér um að (Forseti hringir.) það sé góð regla að upplýsa um svona hluti og við séum þar með að taka undir (Forseti hringir.) með Landsvirkjun og Samtökum iðnaðarins varðandi það.