150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

hollustuhættir og mengunarvarnir.

436. mál
[23:09]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Jú, vissulega lýsti ég mig samþykkan þessu. Þar sem ég er áheyrnarfulltrúi í nefndinni lýsti ég mig samþykkan þessari afgreiðslu og styð tvímælalaust frumvarpið eins og það er. Mig langar til að fara aðeins örstutt yfir ferlið í málinu. Þegar það kom til nefndarinnar var það gjörsamlega ómögulegt. Ég var með öll rauð flögg uppi í málinu því að það var algjört spaghettí. En nefndin fór í þrjá ef ekki fjóra hringi með það, með stöðugum endurbótum og betrumbótum og kallaði eftir umsögnum aftur og þegar allt kom til alls var fyrirmyndarvinna á frumvarpinu sem kom algerlega ónýtt til þingsins, ef þannig má orða það. Niðurstaðan var bara mjög góð. Ég hafði ekki planað að tala mikið um það þó að það hafi kannski farið þannig. Það er í raun mjög flókið að tala um þetta mál því að breytingarnar eru svo miklar og maður getur ekki talað um frumvarpið eins og það var því að það er bara farið, allt öðruvísi frumvarp núna, kannski meira í áttina að því sem það var áður en það var lagt upp, en það eru svona straumlínulagaðar breytingar á því eins og nú er. Ég þakka nefndinni kærlega fyrir góða vinnu — og meira svona.