150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

hollustuhættir og mengunarvarnir.

436. mál
[23:23]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna, stuðninginn og samvinnuna við málið og skil vel athugasemdir hans, en ég hygg að við séum sammála. Mér þótti gott að heyra að fyrirvarinn sneri ekki á neinn hátt að því í hvaða átt við vildum fara með heildarendurskoðun, heldur hugði ég að við öll sem skrifuðum undir álitið, hvort sem var með fyrirvara eður ei, værum samsinna hvert ætti að stefna.

Ég kom hingað upp bara vegna þess að hv. þingmaður nefndi sérstaklega vinnubúðir sem var búið að flagga á fundi nefndarinnar að hún myndi hafa sérstaklega í huga. Það er enn þannig að starfsmannabúðir eru starfsleyfisskyldar þrátt fyrir þær breytingar sem verið er að gera hér og í ljósi orða hv. þingmanns er ég sammála því að þetta sé eitt af því sem við þurfum að huga sérstaklega að, en vildi bara ítreka það. Ég þarf ekkert sérstaklega að fá nein svör við því en vildi draga þetta fram.