150. löggjafarþing — 128. fundur,  26. júní 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[12:02]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður minntist einmitt á dálítið áhugavert atriði í ræðu sinni varðandi veggjöld, að nú væru þrjú mál í nefndum þingsins og á dagskrá Alþingis sem fjalli að einu eða öðru leyti um veggjöld af einhverju tagi. En öll þau mál fjalla einnig um það hvernig þetta eru ekki almenn veggjaldamál. Það er alltaf vísað í einhvern starfshóp og eitthvað svoleiðis þar sem verið er að reyna að hugsa um þetta á heildstæðan hátt í tengslum við orkuskipti og ýmislegt svoleiðis, en samt er komið með smáveggjaldamál hér og þar án þess kannski að þörf sé á því.

Mig langaði til að vekja athygli á því í umræðunni, í þessu stærra samhengi, að í þessu máli er t.d. verið að koma á notendagjöldum fyrir einstakar framkvæmdir sem við þekkjum, bæði í Vaðlaheiðargöngum og í Hvalfjarðargöngum, og hafa gefist bæði mjög vel og mjög illa, ólíkur endir þar á, varðandi framkvæmdina eins og hún gekk fram o.s.frv. Í Vaðlaheiðargöngum var verkefni neðarlega á forgangsröðunarlista togað ofar og það má skoða hugmyndir um það hvernig arðbærni hefði átt að skila sér til notendanna. Það er að einhverju leyti réttlætanlegt, fyrir utan það hversu mikið sú framkvæmd fór síðan fram yfir og áætlanir stóðust ekki. Aðferðafræðin við að ákveða það var pólitísk frekar en fagleg. Á nákvæmlega þessum nótunum eru þeir sem leggja málið fram að reyna að réttlæta þessi veggjöld, að þau séu í raun og veru arðbær fyrir notendur án þess þó að það sé útskýrt (Forseti hringir.) hversu neðarlega á forgangsröðunarlista þessi verkefni eru, hvernig það eru í raun ekki skatttekjur, (Forseti hringir.) af sköttum sem við greiðum nú þegar, sem greiða fyrir þessar framkvæmdir.