150. löggjafarþing — 128. fundur,  26. júní 2020.

lyfjalög.

390. mál
[17:00]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Ég ætla ekki að vera mjög langorð hér og ég ætla líka standa við það. Ég er áheyrnarfulltrúi í velferðarnefnd en var ekki samþykk áliti þessu þó svo að ég fagni því að lyfjalög hafi verið tekin til heildarskoðunar. Ég tek undir það sem hv. framsögumaður meiri hlutans kom inn á, að Covid setti strik í samfellu málsmeðferðarinnar. Mín skoðun er hins vegar sú að málsmeðferðin hefði þurft að fá að njóta vafans, að það væri ekki slík hætta á ferðum að geyma þetta mál til haustsins og fá þá frekar vandaðri umræðu um þau mál sem helst steytir á.

Það eru tvær greinar sem mig langar að ræða hér. Ég er með breytingartillögu við aðra þeirra en ekki við hina. En það eru hins vegar nokkrar greinar sem ég er hugsi yfir, m.a. 44. gr., um lyfjanefnd Landspítala. Við erum með frumvarp þar sem lagt er til að ný lyfjalög öðlist gildi. Markmiðið er annars vegar að tryggja landsmönnum nauðsynlegt framboð af lyfjum, af góðum lyfjum, af nýjustu lyfjunum eins og hægt er, en jafnframt að þau séu á sem hagkvæmustu verði vegna þess að þetta er stór hluti fjárútláta í heilbrigðiskerfinu. Svolítið hefur borið á því, finnst mér við lestur frumvarpsins, að þessi seinni hluti, þ.e. peningahlutinn, sé ríkjandi, og það hefur einnig borið á því mati í umsögnum.

Síðan er togstreitan um lyfjanefnd Landspítalans kannski birtingarmynd þess þar sem virkilega er tekist á um faglega og fjárhagslega ábyrgð þeirra sem taka ákvarðanir. Leiðin sem er farin er að auka stjórnsýsluhlutverk Landspítalans töluvert og þá með þeim rökum að þar sé mesta þekkingin og kunnáttan. Það er kannski það sem málið snýst um hér og er grunnur að því að ég tel að við þyrftum að fá þroskaðri umræðu, vegna þess að við erum í kapphlaupi við tímann og það kemur breytingartillaga ofan í breytingartillögu vegna þess að þegar einhverju er breytt koma fram nýjar athugasemdir.

Fram kom í máli hv. framsögumanns, Ólafs Þórs Gunnarssonar, áðan um þessa breytingu að þetta væri jákvæð breyting að mati Landspítalans miðað við það sem var, af því að Landspítalann gerði athugasemdir við fyrri breytingu, hann hefði viljað frumvarpið óbreytt, sem þó hafði breyst þar áður. En það að gera Landspítalann sáttan þýðir að aðrir eru ósáttir. Og þar erum við stödd. Ef til vill er þetta réttmæt uppgjöf, að við munum ekki ná því að landa þessu máli og hvernig við högum ákvarðanatöku um lyf þannig að allir séu sáttir. En mér finnst vont að hafa þá tilfinningu að ekki skilji allir nákvæmlega hvar við löndum þessu máli og hvernig, til viðbótar við það að ekki séu allir sáttir.

Þetta eru athugasemdir sem ég geri við afgreiðsluna á 44. gr. og meginástæða þess að ég er ekki samþykk frumvarpinu af því að ég tel okkur ekki vera tilbúin. Ég myndi svo gjarnan vilja að við næðum samstöðu um þetta mál og gætum klárað það. Við hefðum væntanlega náð því hefðum við fengið að nota þá tvo mánuði betur sem þarna hurfu í hafið. Mér finnst að við hefðum þurft að þroska þetta mál betur.

Það sem mig langar jafnframt að gera hér er að ræða þá breytingartillögu sem ég hef lagt fram í málinu. Hún lýtur að 33. gr., sem er sala lyfja í smásölu. Þar legg ég til þá breytingu að Lyfjastofnun verði heimilt að veita leyfi til sölu tiltekinna lausasölulyfja í almennri verslun. Punktur. Lyfjastofnun skuli birta lista á vef sínum yfir þau lyf, styrkleika og pakkningar sem heimilt sé að selja samkvæmt ákvæði þessarar málsgreinar. Það er samhljóða þeirri grein sem fyrir er í frumvarpinu. En breytingin felst sem sagt í því að þetta snýst ekki um undanþáguheimild Lyfjastofnunar í þeim tilfellum þar sem ekki er hægt að nálgast lyf öðruvísi, þ.e. á svæðum þar sem er um að ræða lyfjaverslanir eða heilbrigðisstofnanir, eins og fram kemur í meðförum meiri hlutans, heldur einfaldlega að Lyfjastofnun hafi þessa heimild. Hún geti þá stýrt því þannig að það séu ekki lyf sem eru ávanabindandi, svo dæmi sé tekið, þótt um sé að ræða lausasölulyf, og geti stýrt styrkleika og öðru.

Það sem fer fyrir brjóstið á mér, fyrir utan þá forræðishyggju sem skín í gegn, er hversu léttilega meiri hlutinn tekur þá ákvörðun að hefta frelsið á þennan hátt með því einfaldlega að sjá ekki ástæðu til að taka slaginn og rökstyðja það akkúrat af hverju þetta er svona. Ég er fulltrúi flokks sem lítur svo á að frelsið eigi að vera útgangspunkturinn, að frelsi einstaklings til að taka ákvarðanir um eigið líf sé það sem við göngum út frá, og í þau skipti sem við heftum það frelsi liggi skylda á þeim sem ætlar að hefta það, að rökstyðja mál sitt. Það er ekki sá sem biður um frelsið sem á að þurfa að rökstyðja af hverju hann vill frelsið. Það er sá sem heftir frelsi sem þarf að rökstyðja það.

Sala lausasölulyfja er frjáls annars staðar á Norðurlöndum. Ég vísa í umsögn Samkeppniseftirlitsins til lyfjalaga, sem ekki er vikið orði að í nefndaráliti meiri hlutans. Með leyfi forseta:

„Helstu athugasemdir eftirlitsins vegna frumvarpsins eru annars vegar skortur á ákvæðum sem rýmka möguleikann til þess að selja lausasölulyf í almennum verslunum og hins vegar skortur á ákvæðum um sjálfval viðskiptavina vegna þeirra lyfja.“

Ég gekk ekki svo langt í breytingartillögu minni. Áfram segir í umsögn Samkeppniseftirlitsins:

„Ber í þessu samhengi að horfa til reynslu nágrannalanda. Nýleg rannsókn sænskra samkeppnisyfirvalda frá árinu 2017, á áhrifum þess að heimildir til þess að selja lausasölulyf voru rýmkaðar árið 2009, bendir til þess að viðskiptavinir netapóteka og annarra sölustaða en apóteka hafi notið lægra lyfjaverðs, í samanburði við apótek, í kjölfarið. Það að aðrir söluaðilar en apótek hafi hafið sölu á lausasölulyfjum hafi einnig leitt til meira úrvals ódýrra lausalyfja. Hins vegar hafi breytingarnar ekki haft áhrif á verð lausasölulyfja í apótekum.“

Það er ansi sérkennilegt í nefndaráliti við frumvarp þar sem jafn mikil áhersla er raunverulega lögð á fjármálahlutann, að þetta skuli ekki vera hugleitt, a.m.k. ekki þannig að ástæða sé til að koma með rök á móti. Það getur vel verið að þau séu ekki til og þá er það líka mjög áhugavert. Þannig að ég sakna þess. Auðvitað hefur maður heyrt fleygt setningum í umræðunni á borð við: Það er hægt að fara illa með sig með ofneyslu lausasölulyfja. — Það er auðvitað hægt, og það er líka alveg hægt þótt þau séu keypt í apótekum. Það er ekkert flóknara en það. Ég man ekkert sérstaklega eftir því að hafa farið inn í apótek og keypt íbúfenið mitt og heyrt þar einhver sérstök varnaðarorð frá starfsfólki sem þar er þó að það séu lyfjafræðingar. Við berum ábyrgð á sjálfum okkur fyrst og fremst. Þetta er ekki eitt af því hættulegra sem hægt er að gera, að treysta landsmönnum fyrir því að kaupa lausasölulyf í almennum verslunum sem ekki eru lyfseðilsskyld. Ég árétta að í breytingartillögunni sem ég legg til felst heimild Lyfjastofnunar til að veita leyfi, það er ekki skylda, og að hún geti gert ákveðin skilyrði. Mér finnst vont að það hafi ekki þótt einnar messu virði að fara í gegnum þetta og ræða rökin með og á móti á annan hátt en þann að þetta sé ekki svaravert.

Ég ætlaði að standa við loforð um að vera stuttorð, en ég er við það að nálgast svik þar. Ég ætla samt að bæta einu við. Ég hef fullan skilning og samúð með því þegar vikið er frá settum skilyrðum vegna fólks sem býr í dreifbýli. Ég styð það heils hugar. En ég set spurningarmerki við það þegar verið er að hefta frelsi þorra almennings hér á landi af því að það sé fólkinu sjálfu fyrir góðu, af því að ríkið veit betur, af því að meiri hlutinn hér veit betur, af því að fólk muni fara sér að voða. Þá finnst mér svolítið skrýtið að þessi undanþága sé veitt í dreifbýlinu. Fer fólk þar sér ekki að voða við að geta keypt sér lausasölulyf án þess að það séu sérfræðingar sem afgreiða það í sérstökum lyfjaverslunum? Mér finnst þetta nefnilega lykta af einhverju allt öðru en umhyggju fyrir heilsu landsmanna. Þetta er hrein og klár forræðishyggja og við eigum að vera komin lengra í þessu. Við eigum a.m.k. að íhuga málið, ræða það og finna rök fyrir því ef við ætlum að hefta frelsi landsmanna.