150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

hækkun atvinnuleysisbóta.

[13:43]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég þakka afdráttarlaust svar við spurningunni. En af því að við erum ekki í sagnfræði og deilum ekki um að stigin hafa verið góð skref og þau ber að þakka þá breytir það því ekki að hér verða ekki töfruð fram störf á næstu vikum, jafnvel þótt við gætum vissulega gert meira en ríkisstjórnin hefur ætlað sér. Þess vegna verður maður að spyrja: Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera til að verja það fólk sem nú þarf að lifa á 240.000 kr. eftir skatt en hefur haft málefnalegar ástæður til að gera alls konar skuldbindingar miðað við miklu hærri laun? Kemur til greina, hæstv. forsætisráðherra, þrátt fyrir allt, að hækka grunnatvinnuleysisbætur?