150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[15:00]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þegar Ríkisendurskoðun gefur út umsögn ber okkur að hlusta. Ríkisendurskoðun er okkar stofnun, Alþingis, og hún bendir á í glænýrri umsögn að það sé afar ósennilegt að tryggingarnar sem settar eru fyrir lánalínunni haldi. Þegar ákveðið er að lána skiptir miklu máli hvernig tryggingum er háttað, hvernig veðum er háttað. Ríkisendurskoðun fullyrðir einfaldlega að þessar hugmyndir um veð, bókunarkerfi, vörumerki og lendingarslott, dugi ekki. Þetta eru 15 milljarðar. Þetta er há upphæð, meira en það sem ríkisstjórnin setur í allar barnabætur landsins. Þannig að ég velti fyrir mér og spyr hæstv. ráðherra: Með hvaða hætti getum við tryggt betur hagsmuni ríkisins þegar kemur að tryggingu þessa láns? Ég veit að þarna er allt veðsett upp í topp. Eru einhverjar aðrar leiðir að mati ráðherrans til að mæta þessum alvarlegum athugasemdum eða áhyggjum Ríkisendurskoðunar um að þessi veð einfaldlega dugi ekki? (Forseti hringir.) Við viljum öll Icelandair vel, (Forseti hringir.) sérstaklega með hagsmuni þjóðarinnar og starfsfólk í huga, en þetta þarf engu að síður að vera nokkuð ljóst.