151. löggjafarþing — 17. fundur,  5. nóv. 2020.

árangurstenging kolefnisgjalds.

52. mál
[17:18]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U):

Frú forseti. Við ræðum hér þingsályktunartillögu um dálítið frumlega og skapandi nálgun á það hvernig hægt er að útbúa gjaldtökukerfi hins opinbera. Að kolefnisgjöld, gjöldin sem eru hluti af því sem notað er í baráttunni gegn loftslagsbreytingum, taki mið af því hvernig okkur gengur að berjast gegn loftslagsbreytingum. Eins og við ræddum hér í andsvari, ég og hv. 1. flutningsmaður málsins, Björn Leví Gunnarsson, þá er það örugglega ákveðin áskorun fyrir ósveigjanlegt kerfi fjármálaráðuneytisins og fjárlagaferlið sem þingið fer í gegnum á hverju ári, að taka upp svona nálgun. En þetta er allrar umræðu virði, nokkuð sem ég bíð spenntur eftir að sjá hvað kemur út úr eftir umfjöllun nefndarinnar.

Það eru nokkur atriði sem mig langar að tæpa á, kannski varðandi kolefnisgjöld almennt, sem mér finnst alveg eiga erindi í tengslum við þetta mál.

Í fyrsta lagi langar mig að rifja upp hvernig þau lög sem hér er fjallað um urðu til, þ.e. lög um umhverfis- og auðlindaskatta frá árinu 2009. Þar stendur í greinargerð að miðað sé við að gjaldið á hvert tonn af koltvísýringsígildi sé 4.000 kr. Það er oft þrautin þyngri að reikna út frá tölum í tekjubandormi hvers árs hvert sú tala er komin í dag. En ég fletti upp í skýrslu Alþjóðabankans frá því í maí síðastliðnum þar sem tekið er saman verð á kolefni um allan heim. Þar áætla sérfræðingarnir að kolefnisgjaldið á Íslandi sé um 4.235 kr. á hvert tonn koltvísýringsígildis. Þetta er fjarri því að vera einu sinni verðlagsuppfærsla á þeim 4.000 kr. sem lagt var upp með árið 2009. Ef þessar 4.000 kr. hefðu fylgt verðlagi þá væru það 5.000 í dag. Þannig að í raun má segja að gjaldið sem lagt er á með lögum um umhverfis- og auðlindaskatta hafi lækkað að raungildi allan tímann síðan það var lagt á, jafnvel þótt núverandi ríkisstjórn geti með réttu stært sig af því að hafa hækkað það í tveimur skrefum á fyrstu tveimur árum kjörtímabilsins. Það dugar bara hvergi nærri til að halda einu sinni í við verðlag, hvað þá að það dugi til að ja, t.d. horfast í augu við að það er öllum ljóst árið 2020 að alvarleiki loftslagsvandans er miklu meiri en 2009. Allar aðgerðir í þágu loftslagsmála hefði átt að herða á hverju einasta ári frá 2009, en það hefur því miður ekki tekist með kolefnisgjöldin.

Svo langar mig að nefna hvar við ættum að setja grunnlínurnar. Við ræddum þetta aðeins í andsvörum, ég og hv. þingmaður, vegna þess að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, svo maður vitni í aðra alþjóðastofnun, áætlar að til að kolefnisgjald á heimsvísu skili því markmiði að vera hagrænn hvati í þágu loftslagsmarkmiða þurfi að meðaltali að vera 75 dollarar á hvert tonn ef við ætlum að ná 2°C-markmiðinu í Parísarsamningnum. Það þarf að vera hærra ef við ætlum að ná 1,5°C, sem er metnaðarfyllra markmiðið. Kolefnisgjöldin á Íslandi eru um 30 dollarar. Þau ná því ekki að vera helmingur af því heimsmeðaltali sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kallar eftir. Ég giska á að það sé á þeim grundvelli sem Landvernd leggur til í umsögn sinni um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga núna í haust, að kolefnisgjaldið verði hækkað á næstu árum í skrefum þannig að það verði árið 2023 tvöfalt til þrefalt það sem það er í dag. Kannski er það það sem umhverfisráðherra á við þegar hann segir að þá fari gjaldið að bíta. Ég skil að hv. þingmanni finnist það stuðandi orðalag. Það er líka hægt að segja að með þeim hætti væri tryggt að hagræni hvatinn færi að sinna því markmiði sem hann á að sinna, vegna þess að jafnvel þó að við færum upp í þessa hærri upphæð þá væri það bara hagræni hvatinn í þágu loftslagsbreytinga. Raunkostnaður losunarinnar er miklu hærri. Það er náttúrlega erfiðara að reikna hann út. Raunkostnaðurinn felst í aukinni tíðni ofsaveðurs. Tjón af völdum þess felst í því að malaría færist norðar, það felst í aukinni tíðni skógarelda og alls konar hliðaráhrifum af loftslagsbreytingum, fyrir utan náttúrlega umhverfisáhrif í nærsamfélaginu eins og öndunarfærasjúkdómum nálægt umferðargötum og hvað það nú heitir.

Ef öll áhrif af losun koltvísýrings væru tekin saman væri raunkostnaðurinn ekki þessir 75 dollarar sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn nefnir, heldur mögulega eitthvað miklu hærra. Þýska umhverfisstofnunin skýtur á að gjaldið þyrfti kannski að vera 200 evrur í Þýskalandi til að ná utan um raunkostnað þýsks samfélags af losuninni. Það væri spennandi að sjá það reiknað út fyrir íslenskt samfélag hvað það er sem við og komandi kynslóðir þurfum að bera kostnað af með óheftri losun. Við gætum síðan farið að miða kolefnisgjald og önnur gjöld á þessu sviði við það þannig að þau endurspegluðu þann raunverulega skaða sem athafnir í nútímanum valda, svo við getum innleitt mengunarbótaregluna í þessu máli af alvöru.

Það var nú ekki mikið fleira sem mig langaði að nefna, annað en það að ég er mjög ánægður með tóninn í greinargerðinni, að þetta verður ekki tekjustofn, því að ég held að of mikið af grænum sköttum renni í almennan rekstur hins opinbera. Grænir skattar eiga að vera hagrænn hvati til að draga úr grárri iðju en þeir eiga líka að nýtast til að greiða niður þá grænu. Annað gott dæmi væri vörugjöld á bíla þegar þeir eru fluttir inn. Í dag erum við með það kerfi að við niðurgreiðum hreinorkubíla, sem er hluti af ástæðunni fyrir því hversu vel gengur að auka hlut þeirra í umferðinni á Íslandi. En það er rosalega kostnaðarsamt. Það er rosalega kostnaðarsamt að leggja marga milljarða á ári í það að niðurgreiða nýja bíla. En það er hægt að ná þeim kostnaði niður með því að láta bensínbílana, þá sem brenna jarðefnaeldsneyti, kosta aðeins meira með því að láta vörugjöldin endurspegla frekar þau umhverfisáhrif sem hljótast af þeim, en láta þau auknu vörugjöld þá renna í kerfið til að styðja lækkun vörugjalda hinum megin. Þannig getum við hraðað enn frekar þeirri jákvæðu þróun sem átt hefur sér stað í orkuskiptum í samgöngum.

Ég ætlaði nú bara að hafa um þetta örfá orð en náði að fylla ræðutímann. En aðallega langaði mig að þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir að koma með mál sem er alla vega frábær grundvöllur fyrir umræðu um hvernig við útbúum kerfið utan um það að styðja við grænu umskiptin sem við þurfum að ganga í gegnum á næstu áratugum.