151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

opinber fjármál.

6. mál
[16:15]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Hér var fulltrúi Pírata í hv. efnahags- og viðskiptanefnd og við tekur fulltrúi Pírata í hv. fjárlaganefnd. Ég ætla að fara nokkurn veginn með nákvæmlega sömu ræðu, kannski með aðeins öðrum áherslum.

Við erum að ræða lög um opinber fjármál. Á undanförnum árum hef ég mikið talað um að við eigum að fara eftir lögum um opinber fjármál. Þau eru viðameiri en núverandi framkvæmd þeirra. Við höfum oft fengið þær útskýringar að enn sé verið að innleiða ýmsa króka og kima laganna og meira að segja grundvallaratriði þeirra, að mínu mati, sem fela í sér stefnumótun stjórnvalda þar sem á að vera kostnaðar-, ábata- og valkostagreining á þeim verkefnum sem stjórnvöld fara út í til að grundvöllur sé fyrir því að þau geti sagt að það sem lagt sé til sé arðbær og góð notkun á almannafé. Við setjum þessar reglur og ramma, fyrir okkur, fyrir stjórnvöld, fyrir framkvæmdarvaldið, til að veita aðhald. Það er nefnilega nauðsynlegt að geðþóttavald ráði ekki meðferð almannafjármuna.

Eins og hv. þm. Smári McCarthy kom inn á virðast þessar reglur bara eiga við í hagvexti. Þegar samdráttur verður hlaupa allir til, eins og var gert hér þegar flugfélag féll eða loðnan fannst ekki, og endurskoða fjármálastefnuna og víkja frá þessum ætluðu aðhaldsreglum. Það er ekki farið eftir þeim aðhaldsaðgerðum sem ákveðnar eru, eins og gagnvart kostnaðar-, ábata- og valkostagreiningu. Svo erum við með reglur sem standast ekki þegar á reynir. Það er mjög merkilegt.

Ég spurði í nefndinni: Af hverju bara þrjú ár? Svörin voru að það væri ekki trúverðugt að hafa enga lokadagsetningu. Það er ekki þar með sagt að það sé útséð um hvað gerist eftir þrjú ár, hvort reglurnar verði óbreyttar, hvort það verði einhverjar allt aðrar reglur eða hvað. Maður pælir í hver trúverðugleikinn á bak við þetta sé þegar allt kemur til alls. Við ætlum gera eitthvað eftir þrjú ár. Að víkja frá reglunum í þrjú ár í núverandi ástandi er tvímælalaust eitthvað sem ég get tekið undir því að það þarf að fara í ansi mikla endurskoðun á því hvernig við framkvæmum lög um opinber fjármál til að þau virki vel. Við þurfum líka að vera með trúverðugar reglur en ekki eins og þær sem við erum með núna sem virðast vera tiltölulega lélegar reglur sem bregðast þegar á reynir. Að hafa slíkar reglur gefur okkur ásýnd trúverðugleika. Sjáið þið bara, við erum með fastmótaðar og skýrar aðhaldsreglur um skuldir hins opinbera. En reynslan sýnir okkur að þær skipta engu máli þegar á reynir. Þær skipta máli í hagvexti, þær tempra ákveðna þenslu ríkisins sem er alveg ágætt. Þegar hið gagnstæða gerist gleymist algjörlega að huga einfaldlega að því að gera greiningu á öllum mögulegum aðstæðum sem geta komið upp. Það er léleg kerfishönnun. Áhættugreining á djúpri kreppu og því hvað hún þýðir fyrir reglurnar gleymist. Þýðir það bara að við strokum reglurnar út í smátíma? Er það lausnin? Það væri t.d. alveg hægt að hafa það hluta af lögunum í staðinn fyrir að þetta vesen, að afnema þær í smá tíma og gera síðan eitthvað við þær eftir þrjú ár. Þetta er bara sýndartrúverðugleiki og það er ekki eitthvað sem við höfum efni á að grípa til með reglulegu millibili.

Þegar allt kemur til alls er það Alþingi sem getur sett niður fótinn þegar framkvæmdarvaldið fer ekki eftir lögum um opinber fjármál, a.m.k. þar sem grundvöllur þeirra er í stefnumótun stjórnvalda. Alþingi getur sett fótinn fyrir dyrnar og sagt: Nei, fyrirgefið, þetta verður bara að fara aftur til ykkar. Þið verðið að skila betra frumvarpi, betri ályktun, til þingsins til meðferðar. Þið verðið t.d. að útskýra af hverju rekstur Landspítalans, eins og er í umræðunni núna, kostar þetta mikið eða þetta lítið. Af hverju kostar um 70 milljarða að reka Landspítalann og hvers vegna erum við þá bara að leggja 68 milljarða í þann rekstur? Til hvers? Hver munurinn? Ég fæ ekki svar í fjárlaganefnd þegar ég bendi á að hér sé langur listi af lögbundnum verkefnum sem allar stofnanir eiga að sinna. Ég vil fá að vita hver kostnaðurinn er til að ég viti sem þingmaður hvort verið sé að sinna á fullnægjandi hátt þeim lögbundnu verkefnum sem við höfum ákveðið að séu hluti af starfsemi hverrar stofnunar fyrir sig til að uppfylla réttindi almennings. Hver er þjónustuþörfin þarna á bak við? Af hverju er t.d. svona mikill kostnaður þrátt fyrir að þjónustuþörfin virðist lítil? Svarið getur verið: Af því að þetta eru þung verkefni, og ýmislegt í þá áttina, að sjálfsögðu. Við sjáum hins vegar biðlista fram og til baka hér og þar og spyrjum ekki: Af hverju erum við með svona langa biðlista en svona lítið fjármagn? Myndi ekki borga sig að vera með aðeins meira fjármagn til að losna við biðlistana eða eru einhverjir biðlistar ásættanlegir? Væntanlega, en hversu langir þá? Við tökum aldrei þessa umræðu.

Lykilvandamálið er að ríkisstjórnin kemur hingað í þingið til okkar með fjárlög eða fjármálaáætlun, skellir á borðið og segir: Þetta er það sem við þurfum. Við spyrjum: Af hverju? Þá er öxlum bara yppt og engu svarað. Við fáum umsagnir frá fullt af umsagnaraðilum sem koma með fullt af áhugaverðum ábendingum en þeir geta ekki komið með greinargóðar greiningar á því hverjar fjárheimildirnar eru af því að þær eru ekki gagnsæjar í fjármálaáætlun og fjárlögum. Þar af leiðandi eru umsagnirnar ekkert rosalega gagnlegar fyrir okkur í þinginu. Við höfum því ekki forsendur til að segja: Nú, allt í lagi, aðstæðurnar eru þær að það vantar 10 milljarða í þetta verkefni en fjárheimildir eru upp á 8 milljarða. Það þarf 2 milljarða í viðbót í verkefnið eða gera það á einhvern ódýrari hátt. Hvað gerist? Við köllum umsagnaraðila inn á nefndarfund til að segja okkur hvað standi í umsögn þeirra. Þegar gestakomum lýkur og ríkisstjórnin er ekki tilbúin með tillögur um hvað á að gera þá þurfum við bara að bíða. Við getum ekki gert neitt, við höfum engar forsendur til að segja af eða á, hvort þetta sé gott eða slæmt eða hvort fjármagn sé nægt eða of mikið. Við bíðum bara eftir að ríkisstjórnin nefni einhverja upphæð. Við fáum síðan engin svör þegar við spyrjum: Af hverju þessi upphæð?

Nákvæmlega það sama liggur á bak við reglurnar sem við erum að tala um. Af hverju þessar reglur? Af því að hugmyndafræðin segir að þetta eigi að virka svona. Þegar maður bendir á dæmi eins og ástandið nú eða hrunið fyrir rúmum áratug og spyr hvað eigi að gera er svarið: Við strokum bara út reglurnar í smátíma þar til að það er orðið þægilegt að hafa þær aftur. Þetta er ekki aðferðafræði sem við eigum að beita hér í þinginu, bara alls ekki. Á þessum tímum, þegar við erum að glíma við núverandi vandamál, reynum þá, eins og hv. þm. Smári McCarthy kom inn á áðan, að gera hlutina betur og koma með reglur sem eru ekki bara trúverðugar í hagvexti heldur útskýra einnig hvað gerist ef það kemur efnahagsáfall eins og gerst hefur núna.