151. löggjafarþing — 25. fundur,  25. nóv. 2020.

sóttvarnalög.

329. mál
[16:25]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér hefur ekki þótt neitt benda til að þetta sé í raun og veru nauðsynlegt miðað við hvernig okkur hefur gengið hingað til. Það kann vel að vera að ástæða verði til að skoða þetta seinna meir. Ég velti hins vegar fyrir mér hvort jafn íþyngjandi og alvarlegt inngrip í frelsi fólks og heimild til þess að setja á útgöngubann sé ekki betur geymt þar til við erum komin út úr þessum skafli. Það er ýmislegt sem mér finnst að þurfi að skoða í sóttvarnalögum sem ég held að væri betra að skoða þegar við erum ekki í neyðarástandi. Mér fyndist t.d. mikilvægt að Alþingi eða aðrar eftirlitsstofnanir hefðu miklu betra eftirlitsvald, miklu betri neyðarhemil en nú er í lögunum, en þetta er kannski ekki rétti tímapunkturinn, í miðju kófinu, að vera að skoða það. Mér finnst það sama eiga við um heimild til útgöngubanns. Hvað liggur til grundvallar því að nauðsynlegt sé að setja þessa heimild á núna þegar okkur hefur gengið vel að ráða niðurlögum faraldursins án hennar? Það liggur fyrir að Alþingi getur sett lög (Forseti hringir.) á einum degi til að bjarga fiskeldisfyrirtækjum og ég held að við getum reddað á einum degi lögum til að bjarga útgöngubanni ef nauðsyn krefur.