151. löggjafarþing — 25. fundur,  25. nóv. 2020.

sóttvarnalög.

329. mál
[18:38]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að reyna að vera knappyrtur og geyma kannski umræðuna þangað til í nefndarstörfum. Það eru fáein atriði sem mér finnst mikilvægt að komi fram. Í fyrsta lagi er ég mjög ánægður með að frumvarpið eins og það er lagt fram sé komið. Ég styð þetta frumvarp og hlakka til að vinna með það í hv. velferðarnefnd. Ég hef fylgst gaumgæfilega með umræðunni hér í dag og mun fara með þær umræður með mér inn í nefndina og reyna að átta mig á hvaða atriðum við þurfum sérstaklega að taka á og hverju við þurfum sérstaklega huga að.

Við lestur á frumvarpinu eru kannski tvö álitaefni fyrir utan þau álitaefni sem þingmenn hafa talið hér upp og ég ætla ekki að vera tíunda neitt frekar. Í 11. gr. frumvarpsins er talað um, í a-lið 4. mgr. eða þar um bil, að hægt sé að skikka ferðamenn í ónæmisaðgerð, vissulega við tilteknar aðstæður, ekki hvenær sem er og hvernig sem er heldur við mjög þröngt afmarkaðar aðstæður. Þetta er eitthvað sem ég tel að við þurfum að ræða í nefndinni og mér fannst mikilvægt að það kæmi fram hér. Við höfum ekki farið þá leið hingað til á Íslandi að skikka fólk í ónæmisaðgerðir og þetta þarf að skoða aðeins nánar. Það er eins með 12. gr. frumvarpsins. Þar er vikið að einangrun á sjúkrahúsi eða í sóttvarnahúsi en að mínu mati vantar í rauninni skilgreiningu á sóttvarnahúsi og hvað það þurfi til að bera til þess að geta talist slíkt í lögunum. Ég held að það þarfnist skýringa og vinnu í nefndinni.

Ég ætla ekki að hafa orð mín mikið lengri en þetta. Ég lýsi því þó aftur yfir að auðvitað þarf þetta mál að fá gaumgæfilega skoðun og vinnu í hv. nefnd. Það sést bara af umræðunni hér í dag að mörg sjónarmið munu vera uppi og menn munu hafa mismunandi skoðanir. En ég leyfi mér a.m.k. að fullyrða að það sé almenn samstaða um að þetta sé mál sem þarf að ræða í þinginu, að það sé samstaða um að tími hafi verið kominn á að endurskoða sóttvarnalögin og taka á þessum atriðum. Það er verkefni sem hv. velferðarnefnd fær. Ég mun alla vega fyrir mitt leyti reyna að gera hvað ég get til þess að fara góðum höndum um málið í nefndinni.