151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

fjáraukalög 2020.

337. mál
[16:18]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Má ég benda á að í fyrri efnahagslægðum þá höfum við séð ráðstafanir til að skerða réttindi í almannatryggingakerfinu. Við höfum séð, svo dæmi sé tekið, skerðingarhlutföll hækkuð úr um 38% upp í 45%. Ekkert slíkt er á dagskrá þessarar ríkisstjórnar. Við erum að verja öll almannatryggingakerfin. Við gerum það og við tökum á okkur hallann. Þannig að þegar hv. þingmaður talar um Covid-áhrifin þá segi ég: Þau eru engin hvað varðar kerfin sjálf. Við höfum ekki gert neinar breytingar til að skerða réttindi, alls ekki. Við höfum frekar verið að leita leiða til að koma með einskiptisstuðning. Varðandi hækkun á verðlagi og öðru slíku þá bendi ég á að lögin gera ráð fyrir því að bæturnar hækki um næstu áramót og þar sé tekið tillit til slíkra hluta.