151. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2020.

framleiðsla hormónalyfja úr hryssublóði.

[15:28]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Á Íslandi er virkur iðnaður sem felst í blóðtöku úr lifandi hrossum í því skyni að vinna úr blóðinu hormón sem selt er líftæknifyrirtæki til að framleiða megi frjósemislyf og hvata til að auka frjósemi í svínaeldi til manneldis. Líftæknifyrirtæki borga hátt verð fyrir hormónið og því hefur blóðmerahald aukist til muna á Íslandi á síðari árum. Á nokkrum stöðum er þetta orðið stórbúskapur með allt að 200 hryssur í blóðframleiðslu. Miklir fjárhagslegir hvatar eru til staðar til að hámarka afköstin og því eru blóðmerar látnar ganga með folöld eins oft og mögulegt er, eða þar til hormónið fyrirfinnst ekki lengur í blóði þeirra og þá er þeim slátrað. Folöldin fara jafnan beint í sláturhús.

Á meðan hormónið finnst í blóði meranna er framkvæmd blóðtaka á viku fresti, 5 lítrar í hvert skipti, sjö til átta sinnum yfir sumarið. Íslenski hesturinn en minni en hefðbundið hestakyn og því er blóðmagn í íslensku hryssunum aðeins 35–37 lítrar. Hér er því verið að taka um 14% af blóðmagni þeirra í viku hverri í tvo mánuði. Til samanburðar er miðað við að fólk geti gefið ekki meira en 10% við blóðgjöf og hún fari ekki fram nema á þriggja til fjögurra mánaða fresti og aldrei þegar um er að ræða þungaðar konur. Þá eru dæmi um að merar látist við blóðtöku. Staðreyndin er sú að tekið er allt að 170 tonn af blóði úr 5.000 hryssum.

Ég spyr því hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra: Hvað finnst ráðherra um þetta, að bókstaflega blóðmjólka merar í gróðaskyni? Finnst honum þessi iðnaður uppfylla eðlilegar kröfur um velferð dýra? Ef ekki, hvað ætlar hæstv. ráðherra að gera í þessu dýraníði?