151. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2021.

5. mál
[20:38]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er nefnilega staðreyndin þegar menn eru að biðja um útskýringar í þessu kerfi. Ég held að það hefði verið rétt að biðja um hrútskýringar vegna þess að það hefði kannski gefið meiri og betri svör. Það sem gleymist líka oft í þessu og sýnir hversu snilldarlega vitlaust þetta kerfi er að það er ekki nóg að það sé skerðing innan almannatryggingakerfisins sjálfs heldur fer hún líka yfir í félagslega kerfið hjá sveitarfélögum, eins og með sérstöku húsaleigubæturnar. Þetta er orðið svo útvíkkað kerfi. Besta dæmið, sem sýnir hversu vitlaust kerfið er, er lækkunin úr krónu á móti krónu í 65 aura á móti krónu og hvaða áhrif það hafði. Það sýnir okkur bara að það gengur aldrei upp að hafa þetta svona. Það gengur aldrei upp. Við verðum að finna einhvern grundvöll. Við í Flokki fólksins lögðum fram frumvarp um 350.000 kr., skatta- og skerðingarlaust. Það er svona nokkurn veginn byggt á upplýsingum um hvernig þetta kerfi var hugsað og var í upphafi. Þar af leiðandi myndi ég segja að það væri frábært ef við gætum byrjað þar. Það myndi skipta sköpum fyrir fólk. Okkur ber eiginlega skylda til þess nú þegar að núllstilla þetta kerfi, segja bara: Við tökum út þetta bútasaumaða skrímsli okkar og búum til mannúðlegra kerfi, einn, tveir og þrír. Meira að segja mættum við á meðan, þó að það tæki okkur eitt ár, taka skerðingarnar bara út. Það myndi sýna okkur svart á hvítu alla þessa milljarða sem er verið að taka út úr kerfinu í dag og líka hvernig þeir hafa grætt milljarða á krónu á móti krónu og ýmsu öðru sem þeir hafa gert, t.d. bara þessi ríkisstjórn.