151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

aurskriður á Austurlandi.

[15:42]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Upp úr miðjum desember skall á með miklu regni á Austfjörðum og við sáum myndir af aurskriðu taka í burtu hluta af fallega og friðsæla þorpinu á Seyðisfirði. Þetta voru hrikalegar myndir og við fundum öll til með fólkinu sem þarna býr. Það var mikil guðs mildi að tjónið varð ekki enn meira og að enginn slasaðist á líkama þó að margir glími eflaust við áfall og óöryggi. Því miður varð ekki sama guðs mildi þegar jörðin hrundi undan hluta byggðarinnar Ask í Noregi.

Mig langar því að nýta þetta tækifæri hér og spyrja hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra: Hver hafa viðbrögð ráðuneytisins verið í kjölfar aurskriðunnar á Seyðisfirði? Hvernig hefur samráði verið háttað við sveitarfélagið? Ég vil líka spyrja út í áhættumatið og varnir okkar gagnvart náttúruhamförum. Ég er í rauninni að spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig komum við í veg fyrir það að hér verði hörmungar sambærilegar þeim sem íbúar í Ask í Noregi vöknuðu upp við?