151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[17:24]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér skýrslu og síðan að einhverju leyti umsögn þingsins til hæstv. fjármálaráðherra vegna áforma Bankasýslu ríkisins um að selja hlut ríkisins í Íslandsbanka. Það er kannski rétt að fara í örfáum orðum um það af hverju þetta mál kemur yfirleitt upp. Hvernig gat þetta gerst? Auðvitað gat þetta gerst vegna þess, sem rakið hefur verið í dag, að ríkið fékk í hendurnar eignarhlut í bönkunum í tengslum við hrunið og í tengslum við stöðugleikaframlög. Ég trúi því að þegar það gerðist hafi það ekki verið stefna nokkurs einasta stjórnmálaflokks á Íslandi að ríkið ætti varanlega að vera ráðandi aðili á íslenskum bankamarkaði. Ég á afar bágt með að trúa að svo hafi verið. Eins og menn muna fékk ríkið á þessum tíma upp í hendurnar allan Íslandsbanka, allan Landsbankann og hluta af Arion banka.

Síðan síðast var farið í það að selja ríkishlut í bönkum hefur ýmislegt gerst. Menn hafa farið yfir það í dag að sporin hræði og það er alveg rétt. Það eru ýmis viðvörunarflögg uppi sem menn þurfa að taka mark á, en nákvæmlega vegna þess er svo mikilvægt að við þessa sölu sé farið samkvæmt lögum um sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum frá 2012, sem þáverandi fjármálaráðherra, Oddný Harðardóttir, flutti. Þetta eru lög nr. 155/2012. Samkvæmt þeim á ríkið aldrei að eiga minna en 70% í Landsbankanum en selja Íslandsbanka og Arion banka að fullu.

Sú stjórnmálahreyfing sem ég stend fyrir hér á þingi, Vinstrihreyfingin – grænt framboð, hefur hins vegar verið algerlega skýr með það að við teljum að íslenska ríkið eigi að eiga að fullu einn af kerfislega mikilvægu bönkunum, þ.e. Landsbankann. En Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur, eins og mjög margar aðrar stjórnmálahreyfingar og margir aðrir stjórnmálaflokkar, ályktað um það að á einhverjum tíma eigi að létta á eignarhlut ríkisins í bönkunum. Og talandi um regluverk og eftir hvaða reglum eigi að fara við þetta má ekki láta undir höfuð leggjast að horfa á það að í mörgu öðru hefur regluverki verið breytt, sem kemur okkur til góða. Maður getur ímyndað sér að maður ætlaði að hugsa alla hluti þannig að af því að fyrri saga hafi verið skelfileg, sem hún sannarlega var, þ.e. einkavæðingin 2003–2005, þá ættum við aldrei að gera neitt slíkt aftur. Þá spyr ég: Hafi manni einhvern tímann gengið erfiðlega að keyra einhvern vegarspotta á maður þá aldrei aftur að keyra þann spotta, jafnvel þó að hann hafi verið betrumbættur, þó að búið sé að setja á hann nýtt slitlag, þó að búið sé að koma nýjum umferðarreglum á o.s.frv.? Nei, það er ekki þannig. Við getum ekki bundið okkur við það, enda hafa flestar stjórnmálahreyfingar, þar með talið Samfylkingin, sem ræddi hér áðan um að nú væri ekki rétti tíminn, ályktað um það að við eigum að losa um þennan eignarhlut og menn geta kynnt sér það. Bæði í hvítbókinni og eigendastefnu ríkisins, hvað varðar hlutina í bönkunum, er lagt upp með að þetta sé skynsamlegt. En ég tek það fram, og það er mikilvægt að halda því til haga, að Vinstrihreyfingin – grænt framboð er á þeirri línu að við eigum áfram að halda eftir einum kerfislega mikilvægum banka og við höfum horft til Landsbankans og ályktað um það.

Menn hafa líka rætt dálítið um að núna muni ekki fást gott verð. Mér finnst mikilvægt að fram komi í umsögn þingsins til ráðherra að fáist ekki ásættanlegt verð, það verð sem verður í boði, þá hætti ríkið hreinlega við, þá dragi það í land á þessu stigi. Ég sæi engan héraðsbrest í því og ekkert tjón í því þó að ríkið segði það hreinlega. Bæði er það til skýrleika fyrir þá sem kunna að ætla að bjóða í bankann eða kunna að ætla að kaupa sér hlut en líka til verndar fyrir ríkið. Ríkið á ekki að selja þennan hlut á hvaða verði sem er, það er algerlega skýr afstaða Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs.

Það á heldur ekki að selja allan hlutinn til einhvers eins aðila. Það er verið að tala um að skrá hlutina á markaði og selja í dreifðu eignarhaldi og það er mjög mikilvægt. Ég tel sjálfur að það að selja hluti, að hámarki 2–3%, til eins aðila eða skyldra aðila sé mjög eðlilegt. Ég held að það væri afar heppilegt ef þannig tækist til að einhver hluti bankans, eða jafnvel umtalsverður, færi í dreifða eignaraðild til einstaklinga. Í því tilliti tel ég til að mynda mikilvægt að verði aukaframboð eftir bréfum í bankanum eigi að láta mjög litla fjárfesta ganga fyrir, þannig að fyrirhuguð eignakaup þeirra þurfi ekki að sæta skerðingum eins og stærri tilboð myndu kannski gera, til þess að tryggja að almenningur eigi betri færi á að kaupa hlut, hafi hann áhuga á því.

Menn hafa líka rætt söluna á Icelandair, eða hlutafjárútboðið þar. Við vitum það sem hér erum inni að í því hlutafjárútboði komu, ef ég man rétt, eitthvað í kringum 7.000 aðilar að málum, að stærstum hluta mjög litlir fjárfestar, þ.e. bara einstaklingar. Það sýndi að almenningur hafði áhuga á að kaupa litla hluti og ég tel að það séu ekkert minni líkur á því núna að það gæti gerst. Ég ítreka samt aftur að komi engin ásættanleg tilboð þá eigum við ekki að selja hlutinn.

Lagt er upp með að selja tiltekinn hlut. Við höfum talað um að það eigi að selja 25% hlut. Síðan hafa menn velt fyrir sér að verði mikil eftirspurn megi mögulega selja meira. Mér finnst mikilvægt að ríkið haldi sig við að selja 25% en segi það algerlega fast og algerlega ákveðið að aldrei verði farið upp fyrir 35% í heildarhlutnum sem verður seldur. Það er mjög mikilvægt vegna þess að það er lykilatriði í mínum huga að ríkið eigi bróðurpartinn í þessum banka, að það eigi hann áfram. Við vitum það sem þekkjum þetta regluverk að þegar sölu á þessum tiltekna hlut lýkur þá kemur í raun sex mánaða tímabil þar sem ríkið má ekki setja meira af eignarhlut sínum í bankanum á markað. Sú ákvörðun mun þá verða tekin á næsta kjörtímabili, væntanlega af þeirri ríkisstjórn sem þá mun sitja, komi hún til.

Menn hafa líka talað mikið um að klára þurfi lagasetninguna um aðskilnað fjárfestingarbankastarfsemi og viðskiptabankastarfsemi, sem er hér inni í þinginu, í þingmáli nr. 7, ef ég man rétt, herra forseti, og ég tek undir það. Ég tel afar mikilvægt að sú lagasetning verði kláruð áður en hluturinn verður seldur. Aftur er það mjög mikilvægt, hreinlega til þess að auka skýrleikann í útboðinu, til þess að auka skýrleikann gagnvart þeim fjárfestum sem kynnu að hafa áhuga á að taka þátt eða almenningi. Mér finnst mjög mikilvægt að þetta verði klárað með þeim hætti.

Aftur varðandi tímasetningar, hvort þetta er góður tími. Það er þannig núna og það hefur komið fram á fundum efnahags- og viðskiptanefndar, og einnig á fundi fjárlaganefndar, þó að ég eigi ekki sæti þar, að Íslandsbanki stendur ágætlega um þessar mundir. Öfugt við það sem menn hafa heyrt í fjölmiðlum og heyrt á opinberum vettvangi, að þar sé allt í miklum erfiðleikum vegna frystingar á lánabókum, þá vitum við það núna, ég man ekki hvort það var í fréttum í dag eða í gær, að frystingin á lánabókum bankans er um 10% og um 7% hjá Landsbankanum. Mig minnir að þessar tölur séu nokkuð nálægt því sem var í fjölmiðlum. Jú, það er nokkuð, en þetta er þá eitthvað sem væntanlegur kaupandi tekur afstöðu til og væntanlegir tilboðsgerendur.

Menn hafa einnig rætt um arðgreiðslur og að það sé betra fyrir ríkið að halda öllum hlutnum til þess að eiga tækifæri á að fá allar arðgreiðslurnar. Það er í sjálfu sér alveg sjónarmið, en þá er hægt að benda á að það er ekki þannig að við vitum langt fram í tímann að arðgreiðslur af þessum eignarhlut verði þær sömu og þær hafa verið hingað til. Það er engin leið fyrir okkur að vita það og aukinheldur er ekki verið að selja bróðurpartinn af bankanum. Það er verið að selja fjórðung. Jú, það kann að vera að fjórðungur af arðgreiðslunum myndi þá ekki berast ríkinu, en á móti kæmi þá væntanlega að ríkið fengi pening fyrir þennan eignarhlut sinn. Það væri þá að innleysa þær eignir að einhverjum hluta sem duttu í fangið á því í tengslum við endurskipulagningu bankakerfisins. Sú innlausn er bara mikilvæg akkúrat núna þegar okkur vantar fjármagn sem samfélag, til að mynda í innviðauppbyggingu. Menn eru að kalla eftir því að ríkið setji aukinn kraft í innviðauppbyggingu og menn kalla eftir því að ríkið standi sig betur í því að bæta samfélagslega innviði. Þarna er þá væntanlega hægt að horfa til þess að einhver hluti þessara fjármuna gæti farið í slíkt. Það eru ekki fjármunir sem eru teknir að láni og mikilvægt að horfa til þessa.

Virðulegi forseti. Ég tel að hér sé um varfærið skref að ræða. Ég ítreka það sem ég sagði áðan að það verður ekki stigið stærra skref á þessu kjörtímabili. Næstu skref verða þá í fyrsta lagi á næsta kjörtímabili og þá væntanlega eftir sömu reglum, verði þeim ekki breytt. Ég tel mikilvægt að þingið sendi frá sér jákvæða umsögn með þeim fyrirvörum sem ég hef hér rakið. Það er mikilvægt að þingið sé algjörlega með opin augun gagnvart framkvæmdarvaldinu hvað þetta varðar, að ekki sé gefinn opinn tékki fyrir skráningu eða sölu á þessum eignarhlut. Umsögnin þarf að vera jákvæð en með þessum skýru skilyrðum.