151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[17:55]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur andsvarið. Ég held að það sé rétt að ég ítreki það, ég man ekki hvort ég sagði það í nefndinni eða hvar ég sagði það áður, að ég tek ekki undir þessi rök Kauphallarinnar að ekki eigi að vera neitt efra mark á stærð hlutarins sem við erum að selja, enda hefur það ekki komið fram í máli neinna stjórnarliða, alla vega enn þá, að við séum að tala um að selja stærri hluta en einhvers staðar á bilinu 25–35%. Ég myndi halda mig við lægri prósentuna. Raunar hefur líka komið fram, og hv. þingmaður kannast við það alveg eins og ég, á fundum efnahags- og viðskiptanefndar, að í sjálfu sér væri hægt fyrir ríkið að fá undanþágu til að selja minni hlut en 25% og það kom raunar fram í máli hæstv. ráðherra hér áðan. Í mínum huga er það algerlega skýrt: Við ætlum ekki að selja stærri hluta en þetta. Ég rakti það síðan í ræðu minni einnig, það kann að vera að hv. þingmaður hafi ekki lagt við hlustir, að ég tel að stærð hlutanna sem hver og einn megi kaupa í þessu útboði eigi ekki að vera stærri en á bilinu 2–3% af heildarvirði bankans. Ég tel eðlilegt að það verði tilgreint í umsögn hv. nefndar. Sé það svo að engir erlendir kaupendur séu til í að kaupa „bara“ 2–3% í bankanum, þá kunna önnur skilyrði sem ég nefndi í ræðu minni, t.d. að það fáist ekki kaupendur eða fáist ekki nægilega gott verð, að tikka inn og þá verður það bara svo að vera.