151. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2021.

jarðalög.

375. mál
[16:33]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir umfjöllun hans um málið. Eftir að hafa skoðað málið og umsagnir um það í samráðsgátt Stjórnarráðsins sýnist mér að ráðuneytið hafi gengið nokkuð langt í að bregðast við þeim ágætu athugasemdum sem bárust, og er það gott. Ákveðnir þættir voru einfaldlega teknir úr drögum frumvarpsins, sem ég tel að hafi verið til einföldunar og til bóta. Þó vekja umsagnirnar athygli á ýmsum öðrum atriðum sem verður áhugavert að skoða nánar í umfjöllun nefndarinnar næstu vikur.

Það var þó eitt atriði, herra forseti, sem ég tel mikilvægt að spyrja hæstv. ráðherra um. Það snýr að athugasemdum Sambands íslenskra sveitarfélaga varðandi möguleg fjárhagsáhrif á sveitarfélög, sérstaklega er snýr að því hvort flokkun landbúnaðarlands verði skylda fyrir sveitarfélög. Samband íslenskra sveitarfélaga benti á það í umsögn sinni að slík skylda gæti verið verulega íþyngjandi fyrir sum sveitarfélög þrátt fyrir að mörg sveitarfélög vinni þessa flokkun nú þegar án lagalegrar skyldu. Vissulega hefur þessi hluti frumvarpsins breyst umtalsvert frá þeim drögum sem birt voru í samráðsgáttinni og er um margt orðinn skýrari. En eftir að hafa lesið frumvarpstextann finnst mér enn ekki alveg augljóst hvort flokkun landbúnaðarlands verði skylda fyrir sveitarfélög eða ekki eða hvort meiningin er sú að ráðherra ákveði það sjálfur með reglugerð.

Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra hvort það liggi fyrir hvort þetta verði lagaleg skylda fyrir sveitarfélögin eða hvort ráðherra muni ákveða það síðar, og hvort það liggi þá fyrir hvað ráðherra ætlar að ákveða í þeim málum.