151. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2021.

stjórn fiskveiða.

418. mál
[17:36]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni, formanni atvinnuveganefndar, Lilju Rafneyju Magnúsdóttur, fyrir ræðuna. Mig langar að vitna til andsvars og orðaskipta sem við áttum 10. apríl 2018 þar sem ég vitnaði til þess við þær breytingar sem þá var verið að gera á stjórn fiskveiða, breytinga á strandveiðikerfinu, að komið höfðu fram áhyggjur margra frá smæstu byggðarlögunum og brothættu byggðunum, einkum á Norður- og Austurlandi, um að þeirri breytingu gæti fylgt tilfærsla á afla, hlutdeild í afla, sem við höfum síðan séð raungerast, ekki síst á síðastliðnu ári. Ég get ekki verið sammála hv. þingmanni um að það hafi verið markmiðið. Í rauninni hafa áhyggjur byggðarlaganna raungerst. Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort ekki sé eðlilegt að atvinnuveganefnd líti mjög til sjónarmiða byggðarlaga og sveitarfélaga vítt og breitt um landið við umfjöllun um þetta mál. Þarna eru að verða verulegar breytingar sem er ætlað að hafa, og hafa áhrif á samfélagsþróun og tækifæri byggðanna til að afla tekna og vera í rauninni sjálfbærar. Ég spyr út í áherslurnar í vinnu nefndarinnar hvað það varðar.

Ég vil einnig spyrja hv. þingmann hvort gerð hafi verið sérstök úttekt á áhrifum breytinganna, hvernig þær voru á síðasta fiskveiðiári.