151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

vernd, velferð og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum .

368. mál
[14:09]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að beina nokkrum spurningum til hæstv. umhverfisráðherra. Í fyrsta lagi varðandi þann sið sem hefur tíðkast sums staðar á landinu, aðallega kannski á Suðurlandi, þ.e. veiðar á fýlsungum sem hafa verið stundaðar mikið undir Eyjafjöllum og kannski víðar og er gamall siður. Það segir í greinargerð með frumvarpinu að þessi siður, að veiða ófleyga unga, sé að mestu að hverfa. Ég tel að það sé kannski ekki alls kostar rétt. Þetta er mjög gamall og algengur siður þarna fyrir austan. Ég vil spyrja hvort það eigi alfarið að banna það. Þetta á líka við um sið í Vestmannaeyjum sem gengur út á það að veiða ófleyga súluunga og hefur tíðkast lengi þar og er enn tíðkaður. Ég vil spyrja hvort umhverfisráðherra sé með þessu að boða að þetta (Forseti hringir.) leggist alfarið af, jafnvel þótt það sé stundað sem einhvers konar hefð og til að halda í hefðir.