151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

vextir og verðtrygging.

441. mál
[16:58]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001. Frumvarpið er á þskj. 752 og er mál nr. 441. Frumvarpið var samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Það byggist að hluta til á eldra frumvarpi sem lagt var fram á 145. löggjafarþingi, lá þar frammi á þskj. 1537, sem 817. mál, um takmarkanir á heimildum til veitingar verðtryggðra jafngreiðslulána til neytenda. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, frá því í nóvember 2017, segir m.a. að ríkisstjórnin muni stíga markviss skref á kjörtímabilinu til afnáms verðtryggingar á lánum en samhliða þeim verði ráðist í mótvægisaðgerðir til að standa vörð um möguleika ungs fólks og tekjulágra einstaklinga til að eignast húsnæði. Jafnframt kemur þar fram að sérstök áhersla verði lögð á að gæta efnahagslegs stöðugleika.

Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, um markviss skref til afnáms verðtryggingar, frá 3. apríl 2019, sem er liður í aðgerðum ríkisstjórnarinnar til stuðnings lífskjarasamningum, koma fram sjö aðgerðir sem eiga að miða að afnámi verðtryggingar. Frumvarpið fjallar um tvær þeirra, annars vegar takmarkanir á löngum verðtryggðum jafngreiðslulánum og hins vegar lengingu á lágmarkstíma verðtryggðra lána til neytenda. Önnur breytingin felst í því að hámarkstími verðtryggðra jafngreiðslulána til neytenda verði almennt 25 ár en að ungu fólki og lántökum með lægri tekjur verði veittar undanþágur frá því hámarki með eftirfarandi hætti:

Í fyrsta lagi er um að ræða tvenns konar aldurstengdar undanþágur. Heimilt verður að veita lán með jafngreiðslufyrirkomulagi til allt að 35 ára sé lántaki yngri en 35 ára og til allt að 30 ára sé lántaki 35–40 ára. Miðað er við að lítið verði eftir af líftíma lánsins þegar lántaki nær 65 ára aldri. Þegar um fleiri en einn lántakanda er að ræða er nóg að einn þeirra uppfylli aldursskilyrði. Það er þó ljóst að í sjálfu sér kemur ekkert í veg fyrir að sá sem nálgast 65 ára aldurinn geti tekið nýtt lán, en það verður þá háð þessum almennu takmörkunum sem hér hafa verið reifaðar.

Í öðru lagi er um að ræða undanþágu fyrir tekjulága einstaklinga sem geta átt erfitt með að standa undir afborgunum af styttri verðtryggðum jafngreiðslulánum og lánum í öðru formi. Miðað er við 4,2 millj. kr. í skattskyldar tekjur á næstliðnu ári eða 7,2 millj. kr. ef lántakar eru fleiri en einn. Með þessu er komið í veg fyrir að takmarkanir frumvarpsins bitni á þeim sem líklegt er að gætu illa staðið undir greiðslubyrði óverðtryggðra lána, styttri verðtryggðra jafngreiðslulána eða verðtryggðra lána með jöfnum afborgunum.

Að auki er með frumvarpinu lagt til að kveðið verði á um tíu ára lágmarkstíma verðtryggðra lána til neytenda í lögum. Samkvæmt núgildandi lögum er Seðlabanka Íslands veitt heimild til að ákveða hámarkið í reglum og stendur það í fimm árum. Gert er ráð fyrir að Seðlabanka Íslands verði áfram heimilt að setja reglur um lágmarkstíma verðtryggðra lána, annarra en neytendalána og fasteignalána til neytenda.

Virðulegur forseti. Við vinnslu ákvæða frumvarpsins var haft samráð við Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands og Neytendastofu vegna mats á áhrifum frumvarpsins á þær stofnanir, enda sinna Fjármálaeftirlitið og Neytendastofa eftirliti með lánveitingum til neytenda.   Drög að frumvarpinu voru, ásamt öðrum áformum um lagabreytingar vegna stuðnings stjórnvalda við gerð kjarasamninga, birt til umsagnar í samráðsgátt í júlí 2019, og eru þau sjónarmið sem þar komu fram um frumvarp þetta rakin í samráðskafla frumvarpsins. Í maí 2020 var haldinn fundur með fulltrúum forsætisráðuneytisins, fjármálaráðuneytisins, Alþýðusambands Íslands og Samtökum atvinnulífsins til að ræða m.a. athugasemdir þeirra við frumvarpsdrögin og einkum í samhengi við forsendur lífskjarasamninga. Eftir frekara samráð við aðila vinnumarkaðarins um mitt ár 2020 var ákveðið að gera eftirfarandi breytingar á frumvarpinu:

Í fyrsta lagi: Felld eru brott ákvæði um að grundvöllur verðtryggingar í neytendalánum og fasteignalánum til neytenda skuli vera vísitala neysluverðs án húsnæðis.

Á sínum tíma, þegar lífskjarasamningarnir voru í undirbúningi, var lagt töluvert kapp á að þetta atriði kæmi inn í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar til stuðnings lífskjarasamningunum, en á sama tíma voru aðilar sammála um að það skyldi skoðað betur ofan í kjölinn hvernig það kynni að koma út til lengri tíma að gera þessa breytingu á samsetningu vísitölunnar sem horft er til í verðtryggðum húsnæðislánum og reyndar neytendalánum. Við erum sem sagt ekki að tala um að þessar vísitölur séu ekki til en við erum í raun að tala um þá hugmynd sem fram kom frá aðilum vinnumarkaðarins, sérstaklega frá launþegahreyfingunni, að gera það að skyldu að miða við vísitölu sem væri án húsnæðisliðarins. Undirliggjandi er þá hugmyndin um það að sveiflur í verði húsnæðis geti komið niður á lántökum með óþægilegum hætti. Eftir því sem þetta mál hefur verið skoðað betur virðist sem þær sveiflur hafi, ef eitthvað er, mildað höggið, t.d. eftir hrunið, og það hafa komið fram, undir frekari athugunum á þessu máli, fleiri sjónarmið. Nú er svo komið að það er ágætissátt um það við þá aðila sem yfirlýsingin var gefin til, við aðila vinnumarkaðarins, að leggja ekki lengur áherslu á þetta atriði. Það á sér upphaf í þessu samtali og þetta var mikið áherslumál en ágætissátt um það núna, eftir að málið hefur verð skoðað ofan í kjölinn, að hafa það ekki í forgrunni lengur. Þetta er um grundvöll verðtryggingar í neytendalánum og fasteignalánum til neytenda.

Í öðru lagi: Undanþágum frá banni við verðtryggðum jafngreiðslulánum til 40 ára er breytt svo:

a. Aldurstengdu undanþágurnar eru einfaldaðar með þeim hætti að þeim er fækkað úr þremur í tvær, hámarksaldri til að falla undir undanþágu er breytt úr 44 árum í 40 ár og hámarkslánstíma er breytt úr 40 árum í 35 ár.

b. Felld er brott undanþága frá hámarkstíma verðtryggðra jafngreiðslulána sé veðsetningarhlutfall 50% eða minna á lántökudegi.

Veigamestu áhrif þeirra breytinga sem eru lagðar til með frumvarpinu á neytendur felast í styttingu hámarkslánstíma nýrra verðtryggðra jafngreiðslulána í 25 ár. Þessi breyting er til þess fallin að stuðla að hraðari eignamyndun að jafnaði hjá þeim neytendum sem taka verðtryggð íbúðalán og þar með minni hættu á að eigið fé þeirra í húsnæði verði neikvætt á fyrri hluta lánstímans, en aftur á móti er líklegt að lægsta mögulega greiðslubyrði verðtryggðra íbúðalána verði hærri en ella. Og meira en það, það er nokkuð ljóst að hún verður hærri. Ungt fólk og tekjulágir njóta, samkvæmt frumvarpinu, undanþágu við banni við verðtryggðum jafngreiðslulánum til lengri tíma en 25 ára og munu því áfram geta notið þeirrar lágu greiðslubyrði sem er á lengri lánum. Þó ekki þannig að það jafngildi því að þau séu eins og lengstu lánin voru áður, verði frumvarpið samþykkt. Til skemmri tíma eru efnahagsleg áhrif þeirra breytinga sem lagðar eru til með frumvarpinu einkum áhrif á húsnæðismarkað og afleidd áhrif á einkaneyslu og e.t.v. íbúðafjárfestingu. Hækki lægsta mögulega greiðslubyrði íbúðalána í kjölfar breytinganna vegur það til lækkunar íbúðaverðs. Íbúðalán sem veitt verða eftir þær breytingar sem felast í frumvarpinu verða að jafnaði með styttri líftíma og framhlaðnari greiðsluferil en við núverandi fyrirkomulag. Framboð langra, verðtryggðra fjárfestingarkosta gæti minnkað.

Líklegt er að þær breytingar sem verða á verðtryggðum neytendalánum, verði frumvarpið samþykkt, auki hvata til að taka frekar óverðtryggð íbúðalán og auki vægi þeirra á markaðnum þar með enn frekar. Við skulum hafa í huga að það hefur verið mjög hröð þróun í þessu efni undanfarin ár, en þetta hefur m.a. þann ábata að áhrif peningastefnu Seðlabankans á vexti húsnæðislána aukast þar sem fylgni stýrivaxta bankans við vexti og greiðslubyrði er meiri, samkvæmt óverðtryggðum íbúðalánum en verðtryggðum, eða við skulum kannski frekar segja gagnvart slíkum lánum. Virkni peningastefnunnar mun þannig aukast og geta hagstjórnarinnar til að bregðast við efnahagssveiflum eflist.

Við ræðum hér mál sem hefur verið gríðarlega lengi í umræðunni og mikið hefur verið deilt um virkni og áhrif verðtryggingar. Ég held að það sé alveg óhætt að segja að hér sé farin ákveðin millileið. Þetta eru markviss skref, ákveðin skref eins og boðað var í stjórnarsáttmálanum. Þetta er þó ekki slíkt skref að verið sé að skrúfa fyrir þennan möguleika en ég hlýt að láta þess getið hér að mikil breyting hefur orðið á markaði með húsnæðislán á þeim tíma sem þessi umræða hefur staðið. Það sjáum við á því að neytendur taka í æ ríkari mæli óverðtryggð lán og mér sýnist sem þau hafi upp á síðkastið, það hefur kannski aðeins verið að sveiflast, verið meiri hluti veittra lána og það er þá þrátt fyrir að greiðslubyrði þeirra sé ívið hærri. Bent hefur verið á að ef stjórntæki Seðlabankans verða nýtt og aðstæður kalla á það t.d. að vextir hækki muni það hafa töluvert mikil áhrif og meiri en við þekkjum til skamms tíma vegna þess að greiðslubyrðin hækkar þá hratt á þessum hluta útistandandi lána, þ.e. á óverðtryggða hlutanum. Ég hef hér fært rök fyrir því að það séu kostir sem fylgi því og þeir geti verið ótvíræðir. Það eykur virkni peningastefnunnar. Ef við skoðum það hins vegar út frá einstaklingsbundnum hagsmunum, þ.e. hvers og eins sem skuldar óverðtryggt lán, þá sér hann kannski ekki beint kostina í sínu heimilisbókhaldi. Hann sér einungis þá hlið að það fara fleiri krónur úr heimilisbókhaldinu til að standa undir útgefnum skuldbindingum. Þess vegna hafa sumir haft nokkrar áhyggjur af því að þessi staða kunni að koma upp. Besta svarið við því er að við sameinumst um það hér í þinginu að stunda ábyrga ríkisfjármálastefnu, halda opinberum fjármálum þannig að það sé líklegt til að styðja við langtímastöðugleika. Þarna skiptir líka lykilmáli að við séum í takti við það sem gerist á vinnumarkaði og við eigum allt undir því að þær áherslur sem eru ráðandi í Seðlabankanum á hverjum tíma kallist á við það sem gerist hjá ríki og sveitarfélögum í þeirra fjármálum. Þetta eru grundvallarþættir sem við berum vonandi gæfu til að taka með okkur inn í framtíðina vegna þess að við höfum svo margt að læra af sögunni í þessu efni.

Sagan hefur sýnt okkur að þegar það verða skil á milli þess hvernig þessir lykilaðilar í hagkerfi okkar, þ.e. hið opinbera, ríki og sveitarfélög í fyrsta lagi, vinnumarkaðurinn í öðru lagi og síðan Seðlabankinn með sína hagstjórn og tól í þriðja lagi, beita sér hverju sinni, þannig að kraftarnir ganga hver í sína áttina, þá bitnar það á fólkinu í landinu. Það kemur þá fram og það brýst út í verðbólgu. Það hefur gert það margoft á Íslandi sem aftur leiðir til hærra vaxtastigs og við sjáum að áhrifin birtast sömuleiðis í ríkisfjármálunum. Auðvitað geta líka ríkisfjármálin verið leiðandi í slíkri þróun. Óábyrg ríkisfjármálastefna, þar sem engin innstæða er fyrir útgjöldunum, engar forsendur fyrir útgjaldaþenslu, getur kallað það sama yfir okkur. Er þá betra, þegar upp er staðið, að gera ráð fyrir því að allt sé reglulega að fara úrskeiðis og vera með 40 ára jafngreiðslulán verðtryggð þannig að það komi ekki niður á mánaðarlegum útgjöldum heimilanna? Eða er ekki betra að taka á sig fulla ábyrgð á hagstjórninni og segja að við sópum því ekki undir teppið þegar eitthvað fer úrskeiðis heldur verðum að horfast í augu við vandann og verðum að vanda okkur í hagstjórnarlegu tilliti; allir þeir sem þar geta lagt eitthvað af mörkum og bera ábyrgð verða að vanda sig og ekki treysta á að verðbólgan leysi þá undan ábyrgð og núllstilli upp á nýtt þannig að hægt sé að hefjast handa að nýju á nýjum grundvelli með lægra gengi, minna verðgildi peninga — skiljum skaðann eftir og dreifum honum jafnt yfir heimilin. Það er auðvitað ómöguleg aðferð.

Eins og ég rakti áðan er þetta efni svo sem fóður í margra klukkutíma og þess vegna margra daga ræðuhöld í þinginu. (Forseti hringir.) Já, við skulum fara varlega í að setja slíka umræðu af stað en verðtryggingin og þessi almenna notkun hennar á sér auðvitað sögulegar rætur; hún var hreinlega orðin forsenda þess að hægt væri að tryggja aðgengi að fjármagni. Hún var orðin forsenda þess að hægt væri að fá lán. Þeir sem gátu verið uppspretta fjármagns til lántöku á Íslandi þurftu eitthvert akkeri vegna þeirrar óstjórnar sem hafði þá verið í efnahagsmálum, og auðvitað líka áföll um leið sem við höfðum ekki náð að greiða nægilega vel úr. En við erum komin á þennan stað og ég lít þannig á að það væri mikið heilbrigðismerki ef við gætum haldið áfram þeirri þróun að þurfa síður að treysta á 40 ára verðtryggð jafngreiðslulán til að koma fólki yfir þann þröskuld að geta eignast fyrstu eign. Ég vona að ég sé nægilega skýr með þetta. Ég ætla samt sem áður að halda því til haga hér að ég hef haft og hef enn vissar áhyggjur af þeim sem á grundvelli 40 ára verðtryggðra jafngreiðslulána geta í dag fengið lán og keypt sér sitt eigið húsnæði en lenda utan garðs verði frumvarpið samþykkt eins og það liggur fyrir þinginu. Í því sambandi skiptir miklu máli að áður en þetta mál kemur hér fram í þinginu þá höfum við verið að koma með ný húsnæðisúrræði. Félagsmálaráðherra hefur komið hér til þingsins með þingmál sem sérstaklega eru sniðin að tekjulágum sem vilja eignast eigið húsnæði. Við höfum sem sagt skapað nýtt lánaform sem Íbúðalánasjóðurinn gamli, nú Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, sér um sem tryggir aðgengi að lánum á sérstaklega góðum kjörum fyrir minni íbúðir. Þannig stendur þetta mál í samhengi við aðrar aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur verið að beita sér fyrir sem saman eiga að leiða til þess að stjórnvöld geri það sem hægt er til að létta fólki að koma sér þaki yfir höfuðið. Því eru að sjálfsögðu einhver ytri mörk sett en við skulum hafa það í huga hér að yfirgnæfandi meiri hluti þeirra Íslendinga sem eru í leiguhúsnæði í dag óska sér þess helst að komast í eigið húsnæði. Ég hef þess vegna lagt mikla áherslu á það að við gerum engar þær breytingar sem stækka þann hóp sem ekki kemst inn á húsnæðismarkaðinn.

Ég vona að ég hafi komið því til skila að þetta mál stendur við hliðina á og samhliða öðrum aðgerðum ríkisstjórnarinnar sem verka í raun til móts við þá þætti þessa máls sem geta verkað með neikvæðum hætti fyrir tekjulægstu hópana. Ég held sömuleiðis til haga undanþágunum sem skipta líka miklu máli hér og svo hlýt ég líka, undir lok ræðu minnar, að vekja sérstaka athygli á því að við höfum borið gæfu til þess undanfarin ár að standa þannig að málum að það hefur stutt við nokkuð stöðugt verðlag. Við höfum haft stöðugt verðlag á Íslandi í þó nokkuð mörg ár, það er lykilþáttur. Oft hefur verið sagt: Það er ekki verðtryggingin sem slík sem er vandamálið heldur sjálf verðbólgan. Verðbólgan er vandamálið og menn ættu frekar að einbeita sér að rót vandans en ekki þeirri afleiðingu sem 40 ára verðtryggð húsnæðislán eru, afleiðing af hagsveiflum og ekki bara hagsveiflum heldur óstjórn og stöðugri verðbólgu. Þess vegna er gleðilegt að við séum að ræða þetta mál einmitt á þeim tíma sem verðbólga hefur verið stöðug og lág og ekki bara það heldur vextir í sögulegu lágmarki, aldrei lægri en einmitt nú. Ég held að það væru engar aðstæður, engar forsendur, fyrir umræðu um mál af þessu tagi nema einmitt vegna þess að við höfum þetta tvennt núna fyrir framan okkur, stöðugt verðlag og lága verðbólgu sem hefur haldist lág, og verðbólguvæntingar fram á við eru ágætar. Það virðist sem markaðurinn trúi því að Seðlabankinn geti staðið við það loforð sem hann hefur að jafnaði útistandandi og stöðugt, með verðbólgumarkmiði sínu. Það er eins konar loforð um að verðbólgan haldist í kringum 2,5% og það er markmiðið. Þess vegna eiga menn að geta treyst því að verðgildi peninga sé nokkuð öruggt og í takti við slíka verðbólgu. Þetta skiptir gríðarlega miklu máli.

Ég held að allur aðdragandi að þessu máli og ytri aðstæður séu réttar. Ég ætla að segja aftur að þetta er mál sem hefur verið lengi í umræðunni. Það hafa verið skiptar skoðanir um það. Ég hef frekar verið á þeirri línu að við ættum að einbeita okkur að því að tryggja hér góðan ramma fyrir hagstjórnina, um opinberu fjármálin, ná samkomulagi við vinnumarkaðinn og tryggja virkni peningastefnunnar. Þá værum við að ráðast að rót vandans sem verðbólgan hefur verið. Það hefur tekist vel. En að því gefnu að við séum orðin sammála um mikilvægi þess þá sé ég þetta mál í allt öðru ljósi og ég vísa líka til annarra aðgerða sem ég hef verið að vekja máls á hér, hlutdeildarlán heita þau úrræði t.d., og þess vegna treysti ég mér til þess að mæla hér fyrir máli sem kallað er eftir af launþegahreyfingunni, nokkuð sterkt. Við höfum orðað þetta í stjórnarsáttmála. Það hefur áður verið fjallað um þetta í stjórnarsáttmála, þ.e. að þrengja að notkun verðtryggingar í húsnæðislánum og neytendalánum, og ég tel að við höfum unnið gott verk til að undirbúa það að við færum okkur smám saman meira yfir í óverðtryggð lánaform.

Virðulegi forseti. Með þessum orðum tel ég að ég hafi tæmt það helsta sem ég vildi hafa nefnt. Undir lok máls míns vil ég geta þess að bein áhrif frumvarpsins á afkomu A-hluta ríkissjóðs eru mjög óveruleg, einkum geta þau komið fram í gegnum vaxtabótakerfið en þar ber að líta til þess að ákvæði frumvarpsins taka aðeins til nýrra lánveitinga og óvíst hvernig sá hópur sem hefði að öðrum kosti tekið 40 ára verðtryggð jafngreiðslulán mun haga sínum lántökum og þar af leiðandi hver vaxtabyrði hans verður. Þetta er mjög óvíst.

Að þessu sögðu, virðulegur forseti, legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar að aflokinni þessari umræðu og svo til 2. umr. í þinginu.