151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

sveitarstjórnarlög og tekjustofnar sveitarfélaga .

378. mál
[19:54]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér um eflingu sveitarstjórnarstigsins og það er mikilvægt. Við verðum að hafa þá stjórnsýslueiningu sem öflugasta. Það sem er kannski mest rætt um hér og er umdeildast er sú lögþvingaða sameining sem getur komið til verði sveitarfélögin ekki fyrri til, þ.e. lögfesting á lágmarksíbúafjölda við 1.000. Ég tek heils hugar undir mikilvægi öflugs sveitarstjórnarstigs og að við beitum öllu því sem við getum til að aðstoða við að gera sveitarstjórnarstigið sem öflugast. Það er flest sem bendir til þess að sameining sveitarfélaganna sé til góðs fyrir íbúana, fyrir lýðræðið, fyrir rekstrarhagkvæmnina og til að sveitarfélögin geti tekist á við þau verkefni og staðið undir þeim kröfum og skyldum sem þau hafa tekist á hendur, en ég viðurkenni að ég á bara mjög erfitt með að þvinga þau til sameiningar. Ég hef almennt í minni pólitík aldrei verið hlynntur þvingunum, boðum og bönnum, heldur miklu frekar horft til hvata, að skapa hvata. Það er vissulega verið að gera það hér að einhverju leyti. Kannski held ég að við þurfum að ræða það í hv. umhverfis- og samgöngunefnd við hagaðila, sveitarfélögin og samtök þeirra og íbúana, hvort hægt sé að gera eitthvað enn frekar varðandi hvatana, finna aðrar málamiðlunarleiðir til að ná þessu.

Við fjölluðum um þingsályktunartillöguna þar sem þetta markmið kom fram fyrst þannig að við höfum aðeins rætt þetta áður. Þá kom svolítið skýrt fram að þessi tala, 1.000, hefði ekki nein efnisleg rök á bak við sig heldur væri svolítið settur puttinn upp í loftið til þess að taka áttina. Þetta væri líklegasta talan og ég fékk það alla vega á tilfinninguna að þetta væri sú tala sem sveitarfélögin myndu ná saman um á sínum vettvangi að leggja til, sem varð svo raunin. Aukaþingið samþykkti þessa tölu og að farið yrði í þessar aðgerðir, en svo hefur dregið úr þeirri samstöðu.

Hvað er sjálfbært sveitarfélag? Hvað þarf sveitarfélag að vera stórt til að það sé hagkvæmt og annað slíkt? Það er ekki að finna nein rök eða úttekt á því og þótt gerðar hafi verið tilraunir til að reyna að finna það út þá er ekkert á bak við það. Það veldur mér áhyggjum að við séum ekki með rökstuðning fyrir því að þetta sé rétt, ef við ætlum að fara í að lögþvinga sveitarfélög til sameiningar, að við séum ekki með betri rök á bak við þann íbúafjölda sem við ætlum að leggja til.

Svo er það bara í flestu þannig að það er mjög erfitt að neyða einhvern til einhvers. Það er aldrei gott upphaf að samstarfi að neyða fólk til samstarfs. Ef það hefur ekki viljann og frumkvæði til þess þá mun það örugglega lita það sem á eftir kemur. Við verðum að átta okkur á því að ef við ætlum að ná fram öflugri og hagkvæmari rekstri, betri þjónustu við íbúana, þá snýst þetta um það hvernig stjórnsýslan er sameinuð, hvernig hún verður rekin, hvernig ný stjórnsýslueining og sameinað sveitarfélag er rekið eftir sameiningu og ef það byrjar allt í stirðleika og deilum þá verður framtíð þess sveitarfélags örugglega ekki gæfuleg.

Ég vil þá nefna heitustu kartöfluna strax. Það eru skólarnir. Þar sem sveitarfélög hafa sameinast að eigin frumkvæði eru skólamálin alltaf heitasta málið eða mesta þrætueplið. Þar koma miklar tilfinningar inn, mjög miklar tilfinningar, en þarna er mesta fjármagnið og mestu hagsmunirnir í að gera vel fyrir börnin. Það virðist oft vera raunin að börnin eru kannski sáttust við sameiningu og eflingu skólanna, aukið og fjölbreyttara félagslíf og allt það, þannig að þar sést svolítið ávinningurinn af því að sameina og gera sveitarfélögin að stærri einingum með meiri fjölbreytileika og öflugri þjónustu. En íbúarnir og foreldrarnir sem búa vítt og dreift um sveitarfélagið eru ekki alltaf alveg tilbúnir að samþykkja að þetta sé það skynsamlegasta því þau sjá svolítið eftir hryggjarstykkinu í sínu samfélagi, sem er skólinn. Það er stærsti vinnustaðurinn, hann fær mestu fjármunina og mesta lífið er í kringum hann. Þau vilja alls ekki sjá á eftir því.

Þetta er dæmi um mikið deilumál og ég held að það gæti orðið enn erfiðara ef aðilar eru þvingaðir til sameiningar. Við þurfum að gera hvað við getum til að reyna að auka hvatana, fara einhverjar aðrar leiðir. Mér hefur þá dottið í hug hvort það væri kannski ágætismillileið í þessu máli að áður en einhverju sveitarfélagi verður gert að sameinast öðru vegna fámennis væri réttast að kveða frekar á um að þau þyrftu að fara í sameiningarviðræður, könnunarviðræður, þannig að þau kynni sér hvernig sveitarfélag er hægt að gera, hvernig sameinað sveitarfélag myndi líta út, hvernig hagsmunum íbúanna og sveitarfélagsins, sem er mest annt um þetta, reiðir af. Að slíkum viðræðum loknum gætu þau tekið ákvörðun. Við myndum þannig frekar gera þeim að fara í svona könnunar- eða sameiningarviðræður sem myndi enda með kosningu íbúanna þannig að þeir yrðu upplýstir um það hvernig þetta nýja sveitarfélag yrði, hvernig aðstæður þeirra verða.

Ég hef gert það að gamni mínu og til upplýsingar að sækja upplýsingafundi hjá sveitarfélögum sem annaðhvort hafa sameinast nú þegar eða eru að ræða sameiningar þessa dagana. Þar hef ég heyrt af fólki sem er á móti sameiningum en er mjög hlynnt þessum viðræðum, að það sé verið að ræða hlutina, bera saman og fræða fólkið, reikna þetta og taka út. Ég er ekki frá því að þetta gæti frekar leitt til sameininga ásamt þeim hvötum sem eru til staðar og dregið þá úr þörfinni fyrir að skylda þau til sameiningar.

Ég vil líka koma inn á það að fjöldinn segir ekki allt. Aðstæður eru svo misjafnar. Það getur verið fámennt sveitarfélag t.d. í stóru landbúnaðarhéraði þar sem er mikið hálendi og annað slíkt. Þar eru öðruvísi áskoranir, öðruvísi prinsipp og sjónarmið íbúa sem þar búa en hjá þeim sem búa kannski fjarri hálendinu og minna er um landbúnaðarstörf. Það er svolítið hætt við því, þegar tvö ólík samfélög eru sameinuð, að vissir hagsmunir og gildi íbúanna á fámennari stöðum innan sveitarfélagsins verði undir í krafti fjöldans. Og þetta er náttúrlega bara ein ástæðan fyrir því af hverju við erum ekki búin að jafna atkvæði til alþingiskosninga og við erum með skiptingu í misstór kjördæmi og slíkt. Það er til að tryggja mismunandi hagsmuni og þetta á alveg eins við hjá sveitarfélögunum.

Svo er líka annað: Ef sveitarfélögin verða of fjölmenn og of víðfeðm er hætt við því að kjörnir fulltrúar nái ekki að halda sömu samskiptum við íbúana. En helstu rökin fyrir því að við erum að færa verkefni frá ríkinu til sveitarfélaga eru að færa nærþjónustuna í nærumhverfið, þannig að nærþjónustunni sé svolítið stýrt af þeim sem eru í sama umhverfi og íbúarnir, til að veita betri þjónustu. En við megum þá ekki að gera sveitarfélögin of stór eða gera aðstæður þannig að þau verði of víðfeðm til að við náum því fram sem við höfum verið að stefna að hingað til í nærþjónustunni.

Ég finn það alveg hér á Alþingi og þegar maður hittir fólk í kjördæmunum að eftir að kjördæmin voru stækkuð þá finnur fólk fyrir því að fjarlægðin frá Alþingi hefur aukist. Það er ekki eina ástæðan en ég held að það sé ein af mörgum ástæðum fyrir því að traust til Alþingis hefur dvínað, alþingismenn eru ekki í jafn miklu návígi við kjósendur og þeir voru áður í minni kjördæmum. Það verður líka að passa upp á þetta við sameiningu sveitarfélaga.

Sum sveitarfélög eiga augljóslega að sameinast og svo getur þetta verið breytilegt annars staðar. En sveitarfélögin eru alltaf að fá fleiri skyldur og þau vilja eflast og vilja náttúrlega fara eftir stjórnarskrárvörðum rétti sínum til að ráða málefnum sínum sjálf. Þá set ég líka svolítið spurningarmerki við það að þau séu að leita til okkar og biðja okkur um að þvinga sig til sameiningar af því að þau taka ekki á þessu sjálf. Þau verða einhverja ábyrgð að bera. Stóru sveitarfélögin, sem knýja kannski hvað mest á um sameiningar, verða einhvern veginn að finna leiðir til að nálgast minni sveitarfélögin þannig að þau vilji koma til samningaviðræðna. Þau eiga ekki heldur að gera sína þjónustu óhagkvæmari með því að láta minni sveitarfélögin fá hana á undirverði. Kannski segja sumir að þá væru stóru sveitarfélögin ekki að standa undir sinni ábyrgð og væru að þvinga þau til sameiningar við sig. En þau verða alla vega að ræða í sínum ranni hvernig þau geta borið ábyrgð og farið með sín málefni sjálf og náð þessu fram.

Svo vil ég líka segja að aðstæður í sveitarfélögum geta verið þannig að það sé bara ekkert hagkvæmara að sameina þau. Það kom alveg skýrt fram þegar við vorum að ræða, í hv. umhverfis- og samgöngunefnd, þingsályktunartillöguna sem er forveri þessa frumvarps. Hagkvæmni sveitarfélaga væri ekkert alltaf markmið, kannski væri sameining bara til þess að gera þau stjórnsýslulega sterkari, en ekkert endilega hagkvæmari í rekstri. Viss stærð af sveitarfélögum getur búið til óhagræði. Ef við erum að fjölga millistjórnendum eða við náum ekki þeirri stærð að stjórnendur og starfsfólk nýtist að fullu heldur bara að hluta, ef það þarf að fjölga milliliðum þannig að báknið verður stærra, þá þyngist bara róðurinn í rekstrinum og þjónustan verður meira bákn. Og ég nefni aftur það sem ég talaði um áðan, að fjarlægjast íbúana sem er verið að þjónusta.

Ég hef farið yfir það sem ég hef áhyggjur af og það sem við þurfum að passa í þessu. En ég ítreka að ég geri mér grein fyrir því að mörg sveitarfélög eru of smá. Þau eru ekki nógu sterk stjórnsýslulega til að takast á við þau mikilvægu verkefni sem sveitarfélögin eru með, sem eru skipulagsmálin. Skipulagsmál eru gríðarlega mikilvæg og verða mikilvægari með hverju árinu. Það er mikilvægt að þau séu nógu stór til að geta haft skipulagsfulltrúa, byggingarfulltrúa og annað, til að hafa þessa hluti á hreinu. Það eru líka skólamálin, að þau geti staðið að skólaskrifstofu, haft skólafulltrúa, gert almennilega skólastefnu og tekist á við þau mál af því að skólarnir eru stór hluti af rekstrinum. Þá ítreka ég það að hjá þeim sveitarfélögum sem hafa sameinast eða eru í skólasamlagi hefur ekki gengið vel að hagræða og gera breytingar, eins og nemendurnir og börnin vilja oft, af því að íbúarnir hafa ekki viljað sjá á eftir skólanum úr sínum byggðarkjarna. Svo er það náttúrlega innviðauppbyggingin. Það getur oft verið gríðarlega mikilvægt fyrir sveitarfélögin að hafa meira bolmagn til að geta staðið undir grunninnviðum eins og veituframkvæmdum, gatnagerð og öðru slíku.

Það er því að mörgu að hyggja í þessu. Ég hlakka bara til að takast á við þetta verkefni og ræða það í umhverfis- og samgöngunefnd og vonandi finnum við einhverjar leiðir til þess að auka hvatana og halda áfram þeirri jákvæðu þróun sem þó hefur verið. Sveitarfélögin eru alltaf að sameinast, þeim fækkar jafnt og þétt þannig að þetta er að gerast án lögþvingunar.