151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

heimild sveitarfélaga til að innheimta umhverfisgjöld.

121. mál
[21:51]
Horfa

Flm. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að þakka hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni skilyrðislaust fyrir andsvarið. Þingmaðurinn spyr hvernig gjöld þetta séu og hver séu markmiðin. Ég get tekið dæmi sem skýrir þetta kannski ekki að fullu en að einhverju leyti. Fyrir um 20 árum eða svo bjó ég í Bandaríkjum Norður-Ameríku og var við nám. Í úthverfinu sem ég bjó hafði sveitarfélagið þann sið að það innheimti gjöld af hverjum bíl á hverju ári sem var skráður í sveitarfélaginu. Auk þess innheimti fylkið líka gjald sem var greitt árlega. Í tilfelli sveitarfélagsins sem ég bjó í var gjaldið í kringum 1.000 dollarar á bíl. Þetta var fyrir 20 árum. Ég er ekki að leggja til að lagt verði eitthvert hundruð þúsunda kr. gjald á bílaeign, en hins vegar er það þannig að sveitarfélögin þurfa með einhverju móti að hafa tæki í höndunum, hvort sem það eru hvatar eða nudd, eins og maður getur sagt að svona gjald sé, til þess að hvetja fólk til að nota umhverfisvænni ferðamáta. Sveitarfélögin eru aðeins að byrja að stíga þau skref, t.d. með því að draga úr gjaldtöku vegna almenningssamgangna. Það er mjög mikilvægt. Mér finnst það hins vegar ganga hægar en ég vildi. Sú leið sem hefur verið farin, a.m.k. þar sem ég þekki til og þetta hefur verið gert, hefur verið að gjald er tekið af bifreiðum sem eru skráðar í viðkomandi sveitarfélagi. Það er kannski mest vegna þess að hingað til a.m.k. hefur verið tiltölulega erfitt að finna út úr því nákvæmlega hvar bíllinn er notaður, en það vita allir hvar hann er skráður, það eru tiltölulega harðar upplýsingar, skulum við segja.