151. löggjafarþing — 51. fundur,  2. feb. 2021.

þingsköp Alþingis og réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

468. mál
[17:17]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég ætla að leggja orð í belg á allt öðrum nótum. Það vill svo til að ég tók þátt í starfi þingskapanefndar þegar þetta frumvarp var unnið. Ég tek fram að við vorum auðvitað sammála í nefndinni um langflesta hluti og alla þá sem hér birtast, en um nokkra hluti náðum við ekki samstöðu. Þeir voru felldir brott þannig að þetta frumvarp er gert í eins mikilli samstöðu og unnt er, en auðvitað með þeim fyrirvara að einhverjir geri athugasemdir við það í nefndinni og ég reikna með að nefndin taki frumvarpið til gagngerrar skoðunar.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon nefndi að um hluti sem sæta ágreiningi, sérstaklega á miðju kjörtímabili, t.d. ræðutíma þingmanna, væri ekki verið að setja reglur eða gera þær ítarlegri. Það er skiljanlegt og bíður kannski seinni tíma, það má vel vera. Í þessu frumvarpi er það sem menn náðu saman um að langmestu leyti.

Það sem ég ætlaði reyndar að tala um er allt annars eðlis og ég tek það fram að það er ekkert endilega dæmigert fyrir frumvarpið. Það sem ég ætla að ræða um getum við kallað lagaáráttu. Það má kannski finna betra orð yfir það en það er að alla hluti þurfi að binda mjög nákvæmlega í lögum. Það einkennir nokkrar greinar hér að menn leitast við að binda allt mjög nákvæmlega í lögum. Ofboðsleg nákvæmni einkennir mjög lagasetningu nú til dags, og sérstaklega kannski undanfarin ár, þar sem reynt er að binda hvert einasta atvik sem mönnum dettur í hug í lagatextanum og marka þeim atvikum einhvers konar umgjörð í texta sem er afskaplega erfitt og nánast ómögulegt. En menn leitast samt við að gera þetta. Það angrar mig. Ég hef séð mörg frumvörp með svona texta sem er mjög nákvæmur og verður fyrir vikið torskilinn og illskiljanlegur oft og tíðum. Textinn verður mjög langur, einstök ákvæði verða mjög löng, og til eru ágætisdæmi um það, nýleg, mjög langur lagatexti. Þetta lýsir fullkomnunaráráttu löggjafans, sem er að mínu mati algjörlega misráðin.

Herra forseti. Það einkennir þetta líka að verið er að setja í lög það sem er augljóst, ætlað til að hnýta einhverja hnúta, binda eitthvað niður sem veldur misskilningi og jafnvel ágreiningi síðar. Þegar þau vinnubrögð eru viðhöfð, sem er mjög algengt, herra forseti, verða lögin þvæld, óskýr og torskilin. Þau þjóna hlutverki sínu að mörgu leyti illa til lengri tíma litið. Þau verða tilefni ágreinings. Tilgangurinn er að gera hlutina skipulagðari. Oft næst það alls ekki fram þegar þetta er haft að leiðarljósi, það næst ekki að skipuleggja hlutina út í ystu æsar. Alltaf koma upp ný álitaefni og jafnvel erfiðari. Menn eru þannig sífellt að elta skottið á sér í lagasetningunni.

Ég hef verið talsmaður þess að hafa lagatexta skýran og gagnorðan og ákvæðin stutt og skorinorð. Það hefur farið í taugarnar á mér hvað lagatexti er orðinn þvældur, langur og torskilinn. Ég tel að löggjafarvaldið eigi að sjálfsögðu að ganga fram í því að hafa lagatexta skýran, stuttan og gagnorðan. Það er mitt innlegg í þessa umræðu af því að stundum kom það fyrir í þingskapanefndinni að ég gerði athugasemdir einmitt við þetta atriði. Ég get nefnt eitt dæmi úr þessu frumvarpi, herra forseti. Það er í 19. gr. Þar segir, með leyfi forseta:

„Frumvörp, sem innleiða eiga reglur er byggjast á EES-gerðum, skulu að meginstefnu ekki fela í sér önnur ákvæði en þau sem leiðir af gerðinni og skal í greinargerð tilgreina hvaða gerðir frumvarpinu er ætlað að innleiða …“

Hvaða tilgang hefur þetta? Við sjáum það, það er augljóst. Þegar verið er að innleiða EES-reglur á auðvitað ekki að innleiða eitthvað meira nema taka það sérstaklega fram. Það er augljóst. Þetta er dæmi um eitthvað sem er augljóst. Það er þessi alþekkta gullhúðun þar sem embættismenn læða inn eða nýta tækifærið til að koma að einhverjum hugðarefnum sínum eða einhverju sem verið hefur þeirra áhugamál að koma inn í lög. Þá nota þeir tækifærið þegar EES-gerðirnar berast hingað og eru innleiddar til að koma þeim þarna inn. Ég ætla ekki að segja að þarna sé illur ásetningur en þetta er dæmi um augljósan hlut. Auðvitað er þetta augljóst. Þetta á að vera svona. Það á að innleiða þær, en ef innleiða á eitthvað meira en þær þá á að sjálfsögðu að taka það fram. Þetta er eitt dæmi, ekki endilega það besta, og þetta ákvæði lýsir bara góðum ásetningi. Það fer ekkert lengra en það.

Mörg ákvæði í þessu frumvarpi eru bara hið besta mál og ég styð auðvitað þetta frumvarp, enda flutningsmaður, með þeim fyrirvörum sem ég hef nefnt, bæði í nefndinni og áður. Ég vonast til að fram undan sé góð vinna í nefndinni.