151. löggjafarþing — 51. fundur,  2. feb. 2021.

breyting á útlendingalögum til að hemja útgjöld og auka skilvirkni í málsmeðferð.

389. mál
[20:01]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að ég er eiginlega á þeim stað að styðja þessa þingsályktunartillögu en þó kannski ekki alveg af sömu ástæðu og hv. þingmaður, flutningsmaður tillögunnar. Tillagan felur nefnilega í sér að ákvörðunartími um hvort umsókn hælisleitenda fái efnislega meðferð verði að hámarki 48 klukkustundir. Var þá verið að vísa til reglu sem á að vera í Noregi. Það sem kannski fylgir ekki er að 48 klukkustunda reglan í Noregi varðar svokallaðar bersýnilega tilhæfulausar umsóknir, t.d. umsóknir frá svokölluðum öruggum ríkjum eins og Albaníu. Málsmeðferðartíminn á Íslandi er mjög lágur þar. Hann er einhverjir dagar — mér er sagt að hann sé kannski svona tvær vikur með sóttkví, eitthvað svoleiðis, það er ágiskun — þannig að það er ekki vandamálið.

Vandamálið við að ætla að fara að senda fólk til baka á þessum skamma tíma er að til þess að komast að því hvort taka eigi málið til efnismeðferðar þarf gögn frá erlendum ríkjum sem samkvæmt Dyflinnarreglugerðinni hafa allt að þrjá mánuði til að veita þau. Af þessu leiðir að á þeim 48 tímum er ekki hægt að safna þeim gögnum sem þarf til að senda manneskjuna til baka. Með öðrum orðum verður að taka málið til efnismeðferðar að loknum þeim tíma. Með öðrum orðum fæ ég ekki betur séð en að ef þessi regla yrði sett hér í lög, að innan 48 klukkustunda væri komin ákvörðun um efnislega meðferð, þá fengju öll þau mál efnislega meðferð. Ef við erum til í að styrkja kerfið okkar nógu mikið til þess er það svo sem alveg athugandi fyrir minn hatt. Ég efast um að það sé ætlun hv. flutningsmanna þingsályktunartillögunnar. En ég vildi benda hv. þingmanni á þetta og spyrja hann, kannski bara til að veita honum innganginn í það, hvort þau hafi kannað hversu langan tíma taki að taka slíka ákvörðun.