Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 51. fundur,  2. feb. 2021.

breyting á útlendingalögum til að hemja útgjöld og auka skilvirkni í málsmeðferð.

389. mál
[20:40]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um breytingu á útlendingalögum til að hemja útgjöld og auka skilvirkni í málsmeðferð í þessum málaflokki. Það hefur verið mjög áhugavert að hlusta á umræðuna. Ég á örugglega eftir að flytja alveg hundleiðinlega ræðu miðað við það sem maður hefur fengið að heyra hérna. Í mínum huga má segja að málefni útlendingamála, sem sagt hvernig útlendingar koma hingað til landsins, séu í þrennu lagi. Það eru í fyrsta lagi innflytjendur sem koma hingað til að vinna og það er með sérstökum hætti. Við Íslendingar höfum orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að við höfum notið góðs af því hve margt fólk hefur komið hingað til að vinna og í raun og veru bjargað þeirri hröðu uppbyggingu sem hefur orðið í uppsveiflu í þjóðfélaginu, bæði fjölgun atvinnutækifæra og meiri verðmætasköpun. Þar hafa útlendingar spilað stóra rullu í ýmsum geirum, mest í fiskvinnslu og þjónustu, á hótelum og í ferðaþjónustu og slíku. Mér hefur sjálfum fundist Íslendingar fulllatir við að vinnan við þetta sjálfir, ég verð að segja alveg eins og er. Það eru ágætislaun í fiskvinnslu, ef það er málið. Í öðru lagi eru það kvótaflóttamenn sem koma til landsins á sérstakan hátt, eins og orðið segir, eftir kvótakerfi. Það er kerfi sem virkar prýðilega og var tekið í gagnið árið 2015 í tíð ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, þegar hann var forsætisráðherra. Í þriðja lagi eru það málefni hælisleitenda sem mest er verið að ræða um í sambandi við þessa þingsályktunartillögu.

Ég hnaut um eitt í ræðu hv. þm. Helga Hrafns Gunnarssonar áðan. Hann talaði um að það kostaði ekki neitt að hleypa fólki inn í landið. Ég átta mig ekki alveg á þeirri fullyrðingu. Það kostar að fólk komi inn í landið. Þeir sem koma inn í landið sem hælisleitendur fara ekki beint að vinna, kannski í einhverjum tilfellum en í mörgum tilfellum ekki og það kostar. Það er kostnaðarhliðin sem við erum að tala um að við þurfum að passa að fari ekki út fyrir allt velsæmi. Það er ekki af illgirni eða hatri gagnvart útlendingum eins og maður fær stundum að heyra þegar við erum að fjalla um þessi mál, alls ekki. Og af því að vitnað hefur verið í það sem er að gerast hjá Dönum og Svíum, þá man ég vel eftir því, ég minntist einmitt á það hér í dag, að þegar ég var ungur maður vorum við félagarnir einhvern tímann að velta því fyrir okkur hvernig við ættum að eyða næstu mánuðum og misserum. Þá komust félagar mínir að því að ef þeir færu til Danmerkur þá gætu þeir skráð sig strax á atvinnuleysisskrá og svo gætu þeir bara verið á djamminu. Ég var svo kjarklítill á þeim árum að ég lagði ekki í það en þeir fóru þangað tveir eða þrír og höfðu það mjög gott í nokkra mánuði. Voru bara í góðum málum úti í Danmörku og fengu útborgað reglulega til að halda þeirri skemmtun áfram.

Mig langar til að vitna í og lesa upp úr frétt, sem var reyndar minnst á áðan, og það er þá fyrst það sem Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, hefur sagt á sínum vettvangi, í stjórnmálunum þar. Hún segir að markmið sitt sé að enginn sæki um alþjóðlega vernd í Danmörku. Þetta sagði Frederiksen í umræðu í danska þinginu á föstudag. Þetta er sem sagt í fréttum 23. janúar sl. eftir að Pia Kjærsgaard, fyrrverandi formaður danska þjóðarflokksins, hafði kallað hana til andsvara. Það er markmið okkar, sagði hún, ég get fullyrt það en ekki gefið nein loforð um það, en þetta er markmið.

Síðan segir áfram að umsóknum um alþjóðlega vernd hafi fækkað verulega í Danmörku síðustu árin en dönsk stjórnvöld hafi markvisst unnið að því að gera fólki erfiðara fyrir að sækja um inn í landið og gera það um leið síður ákjósanlegan áfangastað fyrir fólk í leit að landvist. Síðan kemur langur texti en niðurlagið er það að Mette Frederiksen leggi áherslu á að hjálpa fólki meira á heimaslóðum. Það er einmitt það sem ég er henni algerlega sammála henni um.

Síðan er það Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, sem hefur margoft þvertekið fyrir að tengsl séu á milli innflytjenda og starfsemi glæpagengja í landinu. En nú hefur hann skipt um skoðun. Í frétt sem skrifuð var 12. september sl. segir að í umræðum í þinginu á miðvikudaginn hafi kveðið við nýjan tón hjá Löfven þegar hann hafi verið spurður af hverju hann gæti ekki sé samhengið á milli mikils fjölda innflytjenda í landinu og aukinnar afbrotatíðni. Stefan Löfven svaraði: Ef fjöldi innflytjenda er svo mikill að við getum ekki aðlagað þá að samfélaginu er aukin áhætta á vandamálum eins og við sjáum núna. Hann endurtók síðan þennan boðskap síðar um daginn í sjónvarpsþætti. Þá hafði hann verið spurður um vaxandi starfsemi glæpagengja sem tengdust innflytjendum. Þá sagði hann: Við höfum tekið á móti mörgum innflytjendum en aðlögun þeirra að samfélaginu hefur misheppnast. Ef margir fullorðnir eru ekki í vinnu sjá börnin það og halda kannski að það sé eðlilegt. Og svo heldur þetta viðtal áfram, sem sagt að börnin aðhafist eins og fyrir þeim er haft. Í fréttinni segir síðan: Ekki er langt síðan Mats Löfving aðstoðarríkislögreglustjóri sagði í samtali við sænska ríkisútvarpið að fjölskylduglæpagengi væru stórt vandamál í landinu. Meðal annars kom fram að 40 glæpagengi stýri skipulagðri glæpastarfsemi á þeim slóðum.

Ég er ekki að segja að við séum að flytja inn glæpagengi í þessu samhengi en maður veit ekki hvað fólk hugsar. Það er verið að fylgjast með úr fjarlægð, það er alveg á hreinu, hvernig hvert ríki fyrir sig stendur að útlendingamálum. Það er bara þannig. Mér finnst það einkennilegt ef við ætlum að fara að halda uppi stefnu sem bæði Svíar og Danir hafa algerlega snúist gegn, eru sem sagt búnir að læra af biturri reynslu að gangi ekki upp, ef við ætlum að reyna að feta þá slóð sem þeir eru að koma sér út af. Það er undarlegt að segja það hér í ræðustól að okkur komi það bara ekkert við hvernig aðrar þjóðir hagi sínum málum. Ég get ekki séð neina skynsemi í því. Við hljótum að vilja læra af reynslu annarra þjóða, ég tala nú ekki um þjóða sem við berum okkur saman við og köllum frændur okkar og vini eins og Dani og Svía.