151. löggjafarþing — 51. fundur,  2. feb. 2021.

breyting á útlendingalögum til að hemja útgjöld og auka skilvirkni í málsmeðferð.

389. mál
[21:27]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Ég tók eftir því, í orðaskiptum við annan hv. þingmann Miðflokksins áðan, að ákveðinn misskilningur í kringum það hvernig kerfið okkar virkar virðist vera mjög algengur. Það kemur best í ljós þegar fólk leggur til að hælisleitendur eða fólk sem kemur hingað og vill fá að dveljast hér ætti að reyna eitthvað annað en að nota hælisleitendakerfið. Mín reynsla af samtölum við fólk er sú að fólk almennt, gott fólk, gerir ráð fyrir því að ef þú ert með hreina sakaskrá, kemur hingað til að vinna og ætlar engum mein, og getur sýnt fram á það með einhverjum hætti, þá megirðu vera hér. Segjum sem dæmi að einhver kæmi hingað frá Bandaríkjunum eða Kanada, talaði jafnvel reiprennandi íslensku af einhverjum ástæðum og ætlaði að fara að vinna og borga sína skatta og svoleiðis. Það gæti viðkomandi ekki. Fólk á erfitt með að trúa því. Á Íslandi er ákveðin trú, eins og ég hugsa reyndar í flestum löndum, á hið almenna dvalarleyfi eða hið almenna atvinnuleyfi og, virðulegur forseti, það leyfi er ekki til. Til eru sérfræðingaleyfi, til eru skortsleyfi, til eru nokkrar tegundir af leyfum fyrir því að fá góðfúslega að vera til á Íslandi. Almennt atvinnuleyfi og almennt dvalarleyfi eru ekki þar á meðal. Þau eru ekki í boði.

Ég fór að minnast þessa vegna þess að einn hv. þingmaður Miðflokksins hér áðan virtist ekki alveg trúa því að hælisleitendur mættu ekki vinna. Ég skil hv. þingmann mjög vel og ég hugsa að það komi mörgum á óvart vegna þess að það er fáránlegt, virðulegi forseti, það er út í hött. Hælisleitendur geta reyndar sótt um sérstakt leyfi til að taka þátt í hagkerfinu frekar en að taka við peningunum sem hér er kvartað undan að sé eytt í þá en það er erfitt að fá það leyfi. Fólk í svokölluðum Dyflinnar- eða „status“-málum getur ekki fengið þetta leyfi og má ekki vinna. Við Íslendingar bönnum því að vinna. Þannig er þetta, virðulegi forseti. Ekkert leyfi stendur þessu fólki til boða nema það giftist Íslendingi eða sé með sérfræðiþekkingu eða eitthvað því um líkt.

Þessi misskilningur og þetta ofmat fólks á því hversu frjálst fólk sé í rauninni er reyndar ekki afmarkað við þingmenn Miðflokksins, eða aðra þingmenn reyndar, heldur er almennt í samfélaginu. Mér leiðist nú að nefna hér orð hv. þingmanns sem er ekki í salnum, eftir því sem ég fæ best séð, hv. þm. Sigríðar Á. Andersen, en árið 2017 var hv. þingmaður dómsmálaráðherra. Þá var frétt á RÚV þar sem var fjallað um að ekki ætti að misnota velvild Íslendinga. Þar fór þáverandi hæstv. ráðherra, núverandi hv. þingmaður, yfir það að hér væru tugir þúsunda útlendinga í vinnu og það fólk sem væri hér að leita í hælisleitendakerfið gæti bara farið sömu leið og aðrir, hér væru Bandaríkjamenn og fólk frá Kanada og svoleiðis og það gæti alveg unnið hér og lifað og fólk gæti alveg farið þá leið.

Virðulegi forseti. Ég er ekki að reyna að niðra hv. þingmann. Hv. þingmaður er löglærður einstaklingur, á þessum tíma þingmaður og nýorðinn dómsmálaráðherra, og þetta var samt hin almenna skynsemi eins og hv. þingmaður skildi hana þá og þetta er enn almenn hugsun, virðulegi forseti. Ég get ekki álasað neinum fyrir að halda þetta vegna þess að þetta er svo augljóst. Auðvitað ætti að vera einhver leið fyrir fólk til að fá að vera hérna. Það þýðir ekki allt fólk, reyndar mega svona u.þ.b. 7% dýrategundarinnar okkar flytja til Íslands, eins og ég fór hérna yfir áðan. Ég er ekki viss um að allt færi til fjárans ef sú prósenta yrði hækkuð um 1% eða eitthvað, eða hálft, ég hef reyndar ekki reiknað það út, en ég efast um að einhver holskefla myndi skella á okkur. Það var jú gert ráð fyrir því að Ítalir myndu koma hingað í milljónavís þegar við gengum inn í EES-samstarfið. Svo varð ekki. Þeir mega allir flytja hingað í dag, allir með tölu. En ég held að mikið af óttanum við þessi mál stafi beinlínis af vanþekkingu, vegna þess að fólk heldur að það sé einhver almenn skynsemi í kerfinu okkar og svo er einfaldlega ekki, virðulegi forseti. Það sem fólk heldur að hljóti að vera, er ekki. Hælisleitendur mega ekki vinna nema með sérstöku leyfi sem er erfitt að fá. Það er ekki til almennt atvinnu- og dvalarleyfi á Íslandi. Ég man ekki þá tíð að það hafi verið og hér eru ekki galopin landamæri. Ef fólk er ekki með þær staðreyndir á hreinu þá er ekkert skrýtið að það myndi sér rangar skoðanir. (Forseti hringir.) En þá á það líka að hafa metnað fyrir því að skipta um skoðun, leita staðreyndanna og álykta í takt við raunveruleikann.