151. löggjafarþing — 51. fundur,  2. feb. 2021.

þingsköp Alþingis.

469. mál
[22:06]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég skil líka það sem hv. þingmaður er að segja um að hugsanlega myndu opnu nefndarfundirnir okkar breytast í einhverja sýningu af því að flæðið í orðræðunni yrði ekki eins eðlilegt og frjálst ef við vissum að allir væru að horfa. En ég legg það fyrir hv. þingmann hvort það sé hugsanlega ekki eitthvað sem myndi bara venjast. Við þurfum alltaf að venjast hlutunum. Þetta yrði nýtt form. Við höfum jú stundum verið með opna fundi. Mér hefur náttúrlega fundist þeir gefast nokkuð vel en þeir virðast einhvern veginn vera miklu formfastari. Það þarf að sminka á manni nefið og eitthvað svona sérstakt.

Þá langar mig líka í framhaldi af þessu að spyrja hv. þingmann hvort hann viti hvað er t.d. að gerast núna hjá borginni en ágætur fulltrúi hreyfingar hans er í borgarstjórn. Borgarstjórn er að loka á beinar útsendingar af borgarstjórnarfundum. Það var ákveðið á síðasta borgarstjórnarfundi. Mér finnst það alveg ofboðslega einkennileg þróun miðað við það sem við erum að reyna að kalla eftir; meiri samskipti við kjósendur og fólkið í landinu, að draga fólk í raun inn í störfin okkar til að það sé meðvitað um hver við erum og hvað við erum að gera.

Að lokum þetta: Heldur einhver í alvöru að við séum að skiptast á skoðunum nema bara rétt sisvona? Þótt við séum ekki á sama máli náum við aldrei að útkljá það þannig að sjónarmið okkar sem erum í stjórnarandstöðu fái nokkurn tíma einhverju áorkað nema í einhverjum undantekningartilvikum. En auðvitað skiptumst við á skoðunum og allt það. En mér finnst þetta frábært mál í raun og veru. Ég held að það sé jákvætt frá A til Ö, a.m.k. þegar lengra líður.