151. löggjafarþing — 51. fundur,  2. feb. 2021.

Sundabraut.

317. mál
[22:58]
Horfa

Flm. (Bryndís Haraldsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir þingsályktunartillögu um Sundabraut, sem er eflaust eitt af okkar mikilvægari innviðaframkvæmdatækifærum sem ætti löngu að vera komið á laggirnar. Þingsályktunartillaga þessi er í raun einföld, hún fjallar um það að fela hæstv. samgönguráðherra að bjóða út verkefnið Sundabraut, hönnun, lagningu, framkvæmd, rekstur, allan pakkann í einkaframkvæmd. Á þingmáli segir hér, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að ráðast í samvinnuverkefni um lagningu Sundabrautar, sbr. f-lið 2. mgr. 1. gr. laga um samvinnuverkefni og samgönguframkvæmdir, nr. 80/2020, þannig að einkaaðili annist fjármögnun framkvæmdarinnar í heild. Ráðherra geri Alþingi grein fyrir framgangi málsins á 151. löggjafarþingi.“

Í stuttu máli snýst þetta bara um það að Sundabraut fari í útboð og það í einkaframkvæmd.

Sundabraut er einn dýrasti einstaki raunhæfi framkvæmdarmöguleiki sem til skoðunar er í vegakerfinu á Íslandi. Þrátt fyrir stóraukin framlög til nýframkvæmda á síðustu árum er ljóst að ef Sundabraut ætti að fjármagna með þeim hætti þyrfti annaðhvort að auka umtalsvert opinber framlög til nýframkvæmda eða að draga úr þeim á öðrum stöðum. Hvorug þeirra leiða hugnast mér nægilega. Þess vegna tel ég, og þeir hv. þingmenn sem standa að þessari tillögu með mér, byggingu Sundabrautar ákjósanlegt verkefni í einkaframkvæmd.

Þessa þingsályktunartillögu flytja ásamt mér hv. þingmenn Haraldur Benediktsson, Jón Gunnarsson, Njáll Trausti Friðbertsson og Vilhjálmur Árnason.

Einkaaðila yrði falið að annast að öllu leyti undirbúning, fjármögnun og framkvæmdir við Sundabraut, svo og rekstur um tiltekinn tíma með innheimtu veggjalda. Að ákveðnum tíma liðnum myndi ríkið taka við sem veghaldari Sundabrautar. Með hliðsjón af því fyrirkomulagi er þannig gert ráð fyrir að framkvæmdin verði boðin út í almennu útboði í kjölfar útboðsauglýsingar.

Hugmyndir um Sundabraut eru eldri en sú sem hér stendur en þær voru fyrst settar fram árið 1975 í tillögu að aðalskipulagi Reykjavíkurborgar og eiga þar af leiðandi langa og mikla sögu ýmissa starfshópa, skipulaga og annað. Sundabraut er mikilvæg tenging við gatnakerfi höfuðborgarsvæðisins. Í Sundabraut felst bætt tenging Grafarvogshverfis við gatnakerfi borgarinnar og töluvert myndi draga úr álagi um Ártúnsbrekku sem er óásættanlegt á helstu álagstímum. Þá er mikilvægt út frá almannavörnum að fjölga tengingum út úr borginni. Sundabraut styttir vegalengd milli Kjalarness og miðborgar og bætir umferðaraðgengi frá Vestur- og Norðurlandi að borginni. Þá léttir Sundabraut á umferð um Vesturlandsveg í gegnum Mosfellsbæ. Þannig bætir Sundabraut tengingu milli landsbyggðar og höfuðborgarinnar og stuðlar að greiðari og öruggari umferð fólks og vöruflutningum allt frá flugvellinum í Keflavík, um Reykjanesbraut, höfuðborgarsvæðið og Sundabraut áfram til Vestur- og Norðurlands.

Flutningsmenn telja afar brýnt að ráðist verði sem fyrst í lagningu Sundabrautar þar sem ástand umferðar á einungis eftir að versna frá því sem nú er og tryggja þarf öryggisleiðir út úr höfuðborginni til austurs og norðurs ef til náttúruhamfara kemur.

Nú er nokkuð síðan ég lagði þetta mál fram hér á þingi en fæ tækifæri til að mæla fyrir því í kvöld og fyrir það er ég þakklát. Ég geri svo ráð fyrir því að þetta þingmál fari til hv. umhverfis- og samgöngunefndar til umfjöllunar. En eins og ég nefndi þá er ég að vísa til laga um samvinnuverkefni um samgönguframkvæmdir sem eru nýleg lög sem við samþykktum hér á þinginu. Ég veit að hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur verið með starfshóp að störfum við að skoða Sundabraut en þeir hafa reyndar verið allmargir á þeim rúmlega 40 árum frá því að þessi hugmynd kom fram. En ég hef heyrt þess getið að hæstv. ráðherra hyggist kynna niðurstöður þessa starfshóps og ég ætla svo sannarlega að vona að þar séu ákjósanlegar leiðir sem hægt er að ráðast í. Ég held engu að síður að full ástæða sé til þess að þingið fjalli um þessa þingsályktunartillögu og þá leið sem ég og aðrir hv. þingmenn erum að benda á með henni, að verkið fari að fullu í einkaframkvæmd.

Að mínu viti er tækifæri fyrir auknar framkvæmdir á sviði innviða með því að fá einkaaðila með okkur í það verk. Það eru fjárfestar þarna úti, og ætla ég bara að nefna lífeyrissjóðina en ég efast ekki um að þeir séu jafnvel fleiri, sem eru að leita að hagkvæmum og öruggum fjárfestingarkostum til langs tíma. Ég hefði haldið að Sundabraut væri tækifæri í þá púllíu. Þess vegna þykir mér spennandi, virðulegur forseti, að kalla eftir tilboðum í slíkt. Ég vona að þessi þingsályktunartillaga fái hraðan og góðan framgang hér á þinginu og ég vona að af lagningu Sundabrautar geti orðið hið fyrsta.