151. löggjafarþing — 53. fundur,  4. feb. 2021.

norrænt samstarf 2020.

497. mál
[16:57]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir að bregðast við þessu. Ég segi fyrir mitt leyti varðandi þá stöðu sem upp kom í Covid að maður varð fyrir smávonbrigðum með samstarfsleysi Norðurlandanna og átti kannski von á meiru því að við tölum svo fallega hvert um annað og við erum svo sterk saman og allt það, þannig að maður varð fyrir ákveðnum vonbrigðum með lokun landamæra og lítinn vilja virtist vera. En vonandi fer það batnandi.

Ég er sammála hv. þingmanni. Það er mjög mikilvægt að við séum komin inn í þetta netöryggissetur í Eistlandi. Ég held að það skipti miklu máli. Ég held að við þurfum að ræða meira um netöryggismálin. Við sáum nýverið fréttir af því að Danir hafa verið að hleypa eða leyfa Bandaríkjamönnum að fá gögn af þeirra kapli. Það skiptir auðvitað máli hvernig við tökumst á við þessi mál og maður hefði einmitt ímyndað sér að Norðurlöndin ættu margt sameiginlegt. Þótt við séum auðvitað lítið ríki, og Norðurlöndin eru það öll í alþjóðasamanburði, ætti þetta í það minnsta að geta verið góð leið til að deila upplýsingum og þekkingu okkar á milli. Hvað netöryggismálin varðar hef ég oft sagt það hér að þó að við höfum stigið mörg góð skref alveg á síðustu misserum þá á okkur öllum að vera ljóst að við eigum mjög langt í land og við þurfum alveg að fara á spretthlaup. Þetta er örugglega maraþon, en við þurfum að fara ansi hratt af stað.