151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[16:47]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég er að hugsa um að gefa hv. þingmanni færi á að gera það sem hann þykist vilja gera, að taka þátt í umræðunni, og ég ætla að biðja hann um að vera ekki sá heigull að skáskjóta sér undan spurningum mínum. Er hv. þingmaður á móti því að Fjölmenningarsetur veiti móttökusveitarfélögum faglegar leiðbeiningar og ráðgjöf vegna samræmdrar móttöku flóttafólks? Er hv. þingmaður á móti því að Fjölmenningarsetur veiti flóttafólki sem ákveður að þiggja ekki boð um búsetu í móttökusveitarfélagi upplýsingar um almenna þjónustu sveitarfélaga? Er hv. þingmaður á móti því að Fjölmenningarsetur haldi utan um og standi fyrir samráði milli þeirra aðila sem koma að móttöku flóttafólks á Íslandi? Er hv. þingmaður á móti því að Fjölmenningarsetur afli upplýsinga frá Útlendingastofnun, sveitarfélögum og öðrum opinberum aðilum, eftir því sem við á hverju sinni, eða á móti því að Fjölmenningarsetri sé heimilt að miðla viðeigandi upplýsingum og ráðgjöf til aðila? Það er það sem þetta frumvarp gengur út á. Og ég bið hv. þingmann að svara þessum spurningum mínum ef hann þorir.