151. löggjafarþing — 58. fundur,  23. feb. 2021.

yfirfærsla reksturs hjúkrunarheimila frá ríki til sveitarfélaga.

[13:23]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Það sem hv. þingmaður nefnir hér síðast, um það hvort kröfum einstakra sveitarfélaga verði mætt með auknum fjárframlögum, gerir ráð fyrir því að staðan sé þannig að viðkomandi sveitarfélag vilji annast reksturinn áfram. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef þá hafa þessi sveitarfélög ekki áhuga á því og það er auðvitað sá útgangspunktur sem ráðuneytið og við þurfum að vinna út frá. En mig langar að nefna það hér, þannig að það liggi algjörlega ljóst fyrir, að við þurfum að vera meðvituð um það í greiningarvinnunni, þegar við erum að leggja grunn að endurmati á raunkostnaði þessara hjúkrunarheimila og þar með útgjöldum ríkissjóðs, að það getur verið verulegur munur á litlum hjúkrunarheimilum sem eru rekin víða úti um land og eru samkvæmt einhverjum mælikvörðum ekki eins hagkvæmar rekstrareiningar og miklu stærri hjúkrunarheimili, en í þeim liggja önnur gæði, þ.e. að búa nálægt sínu heimili og sínu fólki. Það skiptir líka verulega miklu máli þegar verið er að greina þennan kostnað og meta þar með útgjöld ríkisins.