151. löggjafarþing — 60. fundur,  25. feb. 2021.

fjármálafyrirtæki.

7. mál
[13:46]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við erum hér að greiða atkvæði um mjög merkilegt mál, algjört stórmál, mál sem komst kannski mjög rækilega á dagskrá þegar stóru bankarnir okkar fóru í þrot fyrir rúmum áratug. Enn erum við að ræða viðbrögð við þeirri alvarlegu stöðu sem þá kom upp en í millitíðinni höfum við gert grundvallarbreytingar. Við höfum nú þegar komið sparifjáreigendum, þeim sem leggja peninga inn í bankana til að geyma þá þar, í skjól. Reyndar hefur allt of lítið verið rætt um það og of lítið úr því gert hvernig Ísland ruddi brautina fyrir alla Evrópu í því máli með því að veita innstæðum forgang að eignum gömlu bankanna. Svo lögfestum við þá reglu og síðan kom öll Evrópa í kjölfarið. Með forgangi innstæðna í vandræðum og öðrum skrefum sem stigin hafa verið til að fyrirbyggja áhættu sem getur smitast yfir til innstæðueigenda höfum við brugðist við nú þegar. Þetta er bara eitt viðbótarskref, varfærið viðbótarskref og skynsamleg niðurstaða.