151. löggjafarþing — 62. fundur,  3. mars 2021.

störf þingsins.

[13:23]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Náttúruöflin minna sannarlega á sig hér á Íslandi og á sama tíma horfir heimurinn til þess að vinna sig út úr Covid og áfram til nýrra tíma með grænt, starfrænt, skapandi hagkerfi þar sem allir eru í sama bátnum og enginn er skilinn eftir. Til að svo megi verða þurfum við að átta okkur á heildarhagstærðum, áhrifamætti ríkissjóðs og Covid-aðgerða. Nýjar uppfærðar tölur þjóðhagsreikninga benda til þess að framleiðslutapið í hagkerfinu árið 2020 sé um 8,6%, það þýðir 276 milljarðar. Það þýðir að það kostar þjóðfélagið 1 milljarð á dag í Covid. Ef við skoðum ríkissjóð þennan tíma er áætlaður halli sama stærð. Það kostar ríkissjóð nefnilega líka 1 milljarð á dag að mæta þessum kostnaði. Ég myndi áætla, virðulegi forseti, að sveiflujöfnunin, samneyslan og tilfærslurnar með margföldunaráhrifum hjálpi hér og hafi þann tilgang að dempa höggið og jafna leikinn eins og mögulegt er.

En leiknum er ekki lokið. Við ættum nú að halda einbeitingu í þeirri viðleitni að horfa á þessar stærðir og einbeita okkur áfram að efnahagsmálum og atvinnumálum um viðspyrnu og atvinnusköpun og framlengingu aðgerða sem virkað hafa hingað til og fleyta okkur þannig síðustu metrana, áfram veginn inn í þessa heimsmynd hagkerfis. Það þýðir m.a. að framlengja hlutastörf, greiðsluskjól, útvíkka vinnustaðastyrki, auka stuðningslán, útvíkka viðspyrnustyrki, bæta framfærslu námsmanna, sumarstörf og veita frekara svigrúm til að takast á við uppsafnaðar Covid-skuldir og greiðslufresti. Seðlabankinn og lánastofnanir þurfa að koma með ríkissjóði í þá vinnu til að styðja við fyrirtækin og heimilin. Þannig klárum við leikinn.