151. löggjafarþing — 64. fundur,  4. mars 2021.

áhættumat vegna framkvæmdar fjárlaga.

[13:25]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Aðhaldið úr fjármálaráðuneytinu birtist auðvitað með því að við upplýsum þingið um stöðuna og tökum málið upp á vettvangi ríkisstjórnar. Síðan eru lögin nokkuð skýr um það hvaða tilvik geta uppfyllt skilyrði þess að komast inn í fjáraukalög undir lok árs eða eftir atvikum að fá framlag af almennum varasjóði. Með því að halda mönnum við efnið þá er verið að boða það að menn fái ekki slík framlög, enda uppfylli menn ekki skilyrðin ef svo ber undir, sem þýðir að menn eru komnir með halla sem er ákveðið vandamál í stofnanarekstri.

Ég verð að nota tækifærið sömuleiðis til að vekja athygli á því að hér erum við bara að tala um það þegar menn fara fram úr fjárheimildum. Ímyndið ykkur hvers konar verkefni það væri fyrir okkur ef við ætluðum að hafa almennilegt eftirlit með heildarfjárveitingunum, hvort heildarfjárveitingin er í einhverju samræmi við þörfina, hvort við gætum gert betur með heildarfjármunina. Það er auðvitað það sem við þurfum að verða miklu betri í og við erum ekki komin með stofnanakerfi, jafnvel þótt við höfum aðila eins og ríkisendurskoðanda, til að gera það almennilega.